Hlutabréf í kínverska kúlutefyrirtækinu Sichuan Baicha Baidao, einnig þekkt í Kína sem Chabaidao, lækkuðu um meira en 26% á fyrsta degi sínum í kauphöllinni í Hong Kong.

Skráning Chabaidao, sem þýðir einfaldlega 100 tegundir af tei, í kauphöllina í Hong Kong var stærsta frumútboð í Asíu það sem af er ári.

Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í Chengdu og er þriðja stærsta tefyrirtæki í Kína miðað við smásölu. Chabaidao náði að safna rúmlega 330 milljónum dala í frumútboði sínu þrátt fyrir efasemdir fjárfesta.

Samkeppnisaðilar Chabaidao, Mixue, Guming og Auntea Jenny stefna einnig á að selja hlutabréf sín í kauphöllinni í Hong Kong.

Að mati BBC undirstrikar slæmt gengi Chabaidao í kauphöllinni þá erfiðleika sem borgin glímir við þegar kemur að því að endurvekja traust á hlutabréfamarkaðnum í Hong Kong. Fjárfestar hafa enn áhyggjur af endurkomu Hong Kong eftir heimsfaraldur og hefur nýja öryggislöggjöfin einnig hægt á hagvexti í borginni.

Hang Seng-vísitalan tapaði til að mynda rúmlega 16% af verðgildi sínu á síðasta ári.

Kínverska hlutabréfaeftirlitið hefur hins vegar sagt að það ætli sér að styðja enn frekar við frumútboð í Hong Kong með því að aflétta reglugerðir til að auðvelda kínverskum fjárfestum að fjárfesta í Hong Kong.