*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 15. september 2021 19:14

Nóg upp úr tónlistinni að hafa

Einkahlutafélag tónlistarmannsins Ólafs Arnalds á 275 milljón króna eignir og er eiginfjárhlutfall félagsins rúm 98%.

Jóhann Óli Eiðsson
Lítið var um tónleikahald í fyrra hjá Ólafi sem meðal annars má rekja til faraldursins.
epa

Áhrif farsóttarinnar mátti greinlega merkja á rekstur Sílafs ehf., félags í eigu tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, enda lítið um tónleikahald og viðburði vegna samkomutakmarkana. Þótt tekjur hafi dregist saman er félagið ekki á flæðiskeri statt hvað eignir varðar og eiginfjárstaðan sambærileg og áður.

Umrætt félag var stofnað árið 2012 en tilgangur þess er útgáfa tónlistar, myndbanda-, kvikmynda- og auglýsingagerð auk fjárfestinga í fasteignum og verðbréfum. Frá upphafi hafa tekjur félagsins vaxið jafnt og þétt og námu til að mynda 270 milljón krónum árið 2019. Var þar á ferð 95 milljóna aukning frá fyrra ári. Í fyrra féllu tekjur aftur á móti og námu tæplega 118 milljónum.

Langstærstur hluti teknanna hafa verið sala á tónlist utan landssteinanna en útflutningstekjur á síðasta ári, þrátt fyrir að ekkert tónleikahald hafi verið, námu 95 milljónum. Í gegnum tíðina hefur tónlist hans komið víða fyrir. Hann samdi meðal annars tónlistina í bresku þáttunum Broadchurch og lög og stef eftir hann hafa heyrst í myndum á borð við Hunger Games og Taken 3.

Kostnaður dróst að sama skapi saman í fyrra og nam 102 milljónum. Þar af námu laun og tengd gjöld, þrír starfsmenn eru hjá félaginu í tveimur stöðugildum, 24 milljónum. EBITDA nam 15 milljónum í fyrra, hafði verið 106 milljónir árið 2019, og endanleg afkoma var 10 milljóna hagnaður. Er það einn áttundi af því sem var árið á undan. Kostnaður vegna tónleikahalds nam 47 milljónum en var 114 milljónir áður. Meðal annars rekstrarskostnaðar kennir síðan ýmissa grasa. Í fyrra mátti til að mynda finna þar þriggja milljóna burðargjöld, 2,7 milljóna ferðakostnað og risnu fyrir rúmlega tvær milljónir. Símakostnaður var 346 þúsund krónur.

Eignir félagsins drógust saman í fyrra, voru metnar á 275 milljónir í ársbyrjun, sem má rekja til lækkunar á skammtímakröfu á tengt félag. Fasteignir félagsins eru metnar á 147 milljónir en í fyrra eignaðist félagið fasteign að Eyjaslóð með samruna við Stúdíó Segl. Það félag var einnig í eigu Ólafs og útskýrir það lækkun á kröfu á tengt félag. Þá á félagið fasteign á Balí í Indónesíu hvar Ólafur er búsettur. Eigið fé er jákvætt um 271 milljón en skuldir nema alls 4,2 milljónum.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um nýja lausn Marel sem grípur plast og annað óæskilegt úr matvælum.
  • Viðtal við framkvæmdastjóra Klíníkurinnar um hvernig vinna megi á biðlistum með auknu samstarfi ríkisins við einkaaðila.
  • Greining á áhrifum hækkunar álverðs fyrir íslenskt efnahagslíf.
  • Verð á áli hefur ekki verið hærra síðan um mitt ár 2008.
  • Áhrif vaxtalækkana á jafngreiðslulán og eignamyndun skoðuð.
  • Úttekt á miklum vexti íslenskra laxeldisfyrirtækja.
  • Rætt er við nýráðinn sjóðstjóra Kríu um sjóðinn, fyrra starf í kanadíska sendiráðinu og uppvaxtarárin í Bandaríkjunum.
  • Kælilausnir Thor Ice vakið mikla athygli hjá kjúklingaframleiðendum og fyrirséð er að starfsmönnum fjölgi nokkuð á næstunni. 
  • Huginn og muninn eru á sínum stað auk Óðins.