Stjórn Northern Travel Holding (NTH) hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum hjá  Héraðsdómi Reykjavíkur. Einar Þór Sverrisson hrl. staðfesti það við Viðskiptablaðið en hann er stjórnarformaður félagsins. Ekki fengust nákvæmar upplýsingar um skuldastöðu félagsins en það er í hárri skuld við fjárfestingafélagið Fons sem var í eigu sömu aðila. Ekki er búið að úrskurða um gjaldþrotið enda verið réttarhlé.

Eftir því sem komist verður næst er krafa Fons upp á 15 milljarða króna en eins og kom fram í síðustu viku þá eru kröfur í þrotabú Fons hátt í 40 milljarðar króna. Bæði félögin voru hluti af veldi Pálma Haraldssonar. Rétt er að taka fram að ólíklegt er að upphæð krafnanna gefi rétta mynd af heildarupphæðinni, þar sem í sumum tilvikum er um að ræða tvílýsingar, þ.e. að sömu kröfunni er lýst tvisvar.

Í lok árs 2007 var verðmæti liðlega þriðjungs eignarhluta Stoða (áður FL Group) í Northern Travel Holding (NTH) fært til bókar á 875 milljónir danskra króna, að því er fram kemur í grein Børsen, eða um 10,6 milljarða króna miðað við gengi dönsku krónunnar um áramótin 2007/2008.

Samkvæmt því hefur heildarverðmæti NTH verið talið nema um 30,5 milljörðum króna en helstu félögin í eigu NTH voru Sterling, Iceland Express og breska félagið Astreus og þriðjungshlutur í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket, sem síðar varð alfarið í eigu Fons, sem aftur var í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

Stoðir seldu fyrir ári síðan 34,8% hlut sinn í NTH til Fons sem þar með átti NTH  að fullu, en í tilkynningu Stoða kom fram að salan hefði falið í sér að lán Stoða til NTH hefði verið greitt og að engin fjárhagsleg tengsl væru lengur á milli félaganna.

Í lok annars fjórðungs í fyrra færðu Stoðir niður verðmæti eignarhlutans í NTH.