Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir, tímasetningu stofnunar Play góða þrátt fyrir heimsfaraldurinn. „Félagið kemur skuldlaust inn í geira sem hefur safnað skuldum undanfarið ár. Þá eru aðstæður fyrir gerð leigusamninga um flugvélar mjög góðar,“ bendir Snorri á en Jakobsson Capital hefur sem óháður greiningaraðili unnið verðmat á Play í aðdraganda hlutafjárútboðs félagsins.

Play stefnir á First North markaðinn eftir útboð sem hefst 24. júní, sama dag og jómfrúarflug félagsins, sem verður frá Keflavíkurflugvelli til London. Stefnt er að því að safna um fjórum milljörðum króna í útboðinu. „Félagið kemur skuldlaust inn í geira sem hefur safnað skuldum undanfarið ár. Þá eru aðstæður fyrir gerð leigusamninga um flugvélar mjög góðar. Félagið hefur gert samninga á um fjórðungi hagstæðari verðum en fyrir faraldurinn til um það bil tíu ára. Þá er auðvelt að finna vinnuafl í því árferði sem nú ríkir,“ bendir Snorri á.

Jákvæðar fréttir séu farnar að berast af ferðaþjónustunni eftir að hafa verið í hálfgerðum dvala undanfarið ár. „Stjórnendur Play segja að bókanir fari vel af stað. Samkvæmt stjórnendum Play og Icelandair er útlit fyrir því að bókanir í haust verði góðar,“ bendir hann á.

Í rekstaráætlun Play sem birt var í gær er gert ráð fyrir að það skili hagnaði strax á næsta ári upp á 4 milljónir dollara, sem er hátt í hálfur milljarður króna og hagnaðurinn aukist árlega þar eftir og nái 43 milljónir dollara, um fimm milljörðum króna árið 2025.

Snorri bendir á að enn eigi margt eftir að skýrast. „Á móti kemur að óvissan er gríðarleg og því dregur Jakobsson Capital upp sviðsmynd óháða sviðsmynd Play,“ segir hann.

„Sú sviðsmynd sem Jakobsson Capital leggur upp með er að það taki lengri tíma að vinna markaðshlutdeild meðal erlendra viðskiptavina og því þurfi að eyða meiri fjármunum í markaðssetningu og vöxtur verði hægari. Sömuleiðis gerir sú sviðsmynd sem Jakobsson Capital dregur upp, ráð fyrir: Að gengi krónunnar muni óumflýjanlega styrkjast sem mun setja kostnaðarþrýsting á félagið, auk þess sem að tvö stór flugfélög á innlendum vinnumarkaði mun líklega leiða til launaskriðs í flugstéttinni.“

Þá megi búast við því að verð á öðrum kostnaðarliðum Play taki einnig að hækka þegar fluggeirin hefur tekið við sér og samkeppnin farið á fulla ferð. „Verð á flugvélaeldsneyti, leiguverð á vélum, viðhaldskostnaður og umsýslukostnaður mun hækka í verði sem setur þrýsting á kostnað félagsins, svo og mun flækjustig aukast,“ segir Snorri.