Hin vinsæla bandaríska sjávarréttarkeðja Red Lobster rambar nú á barmi gjaldþrots en fyrirtækið tapaði meðal annars 11 milljónum dala á síðasta ári.

Bloomberg greindi frá því fyrir helgi að Red Lobster hafi ráðið King & Spalding, lögfræðiskrifstofa sem sérhæfir sig í gjaldþrotum, til að kanna möguleika sína.

Sérfræðingar segja að vandamálin hafi byrjað síðasta sumar þegar Red Lobster ákvað að koma til móts við viðskiptavini sína, sem voru margir hverjir að glíma við háa verðbólgu. Red Lobster fór að bjóða aftur upp á tilboð þar sem þú gast borðað eins mikið af rækjum og þú getur í þig látið fyrir aðeins 20 dali.

Tilboðið virtist vera of freistandi fyrir of marga og þrátt fyrir að hafa hækkað tilboðið í 25 dali þá tapaði veitingakeðjan miklum fjárhæðum. Red Lobster vonast nú til að losa sig við leigusamninga á nokkrum af þeim 650 veitingastöðum sem það rekur.

Thai Union Group PLC, sem rekur veitingakeðjuna, hefur nú einnig lækkað verðmæti Red Lobster en samsteypan keypti staðinn árið 2020 af Golden Gate Capital, sem keypti staðinn árið 2014 af hinum upprunalegu stofnendum.