*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 2. nóvember 2020 09:55

Reglur um fjöldatakmarkanir óskýrar

Yfirlögregluþjónn skýrir að starfsmenn verslana séu undanþegnir hámarksfjölda. Framkvæmdastjóri SVÞ ósáttur við óskýrleika.

Ritstjórn
Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Haraldur Guðjónsson

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu segir óheppilegt að reglur um fjöldatakmarkanir í verslunum skuli ekki vera skýrari, sérstaklega í ljósi þess hve íþyngjandi þær eru að því er Vísir greinir frá.

Áhöld hafa verið um hvort fjöldatakmarkanirnar eigi við um alla sem í verslununum séu eða einungis viðskiptavinina og þar með séu starfsmennirni undanskildir, en nú hefur Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra sent skilaboð til yfirmanna í lögreglunni um að uppgefnar fjöldatakmarkanir miðist við fjölda viðskiptavina.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi hafa stjórnvöld sett mun harðari reglur um fjöldatakmarkanir og grímuskyldu, þar sem miðað er við að einungis 10 megi koma saman í einu, nema í matvöru og lyfjaverslunum þar sem hámarkið megi vera 50, og jafnvel hærra eftir því sem húsnæðið er stærra.

Andrés segir skiljanlegt að lögreglan hafi gagnrýnt verslunarmenn í fjölmiðluðlum fyrir að hafa ekki farið eftir reglunum því þær hafi ekki verið nægilega skýrar.

„Það er afar óheppilegt þegar svona stjórnvaldstilmæli eru jafn íþyngjandi og þessi eru, að þau séu ekki þannig úr garði gerð að það sé hafið yfir vafa hvernig á að fylgja þeim, bæði fyrir þá sem eiga að framfylgja þeim og þá sem eiga að fara eftir þeim,“ segir Andrés

„Við gagnrýnum það á móti að stjórnvaldsfyrirmælin, sem þessi reglugerð er, hafi ekki verið nægjanleg skýr og ákvæði um grímuskylduna hafi ekki verið nógu vel kynnt af hálfu stjórnvalda. Við sendum út tilkynningu til okkar félagsmanna til að skýra út fyrir þeim eins vel og hægt var hvað í þessu fælist, en til að það sé hægt þurfa fyrirmælin sem við byggjum á að vera skýr og ótvíræð.“