*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 29. október 2020 16:27

Skúli tapaði í Hæstarétti

Þrotabú EK1923 ehf. vann fullnaðarsigur gegn Skúla í Subway og Sjöstjörnunni fyrir Hæstarétti.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sjöstjarnan ehf., félag Skúla Gunnars Sigfússonar, oft kenndum við Subway, þarf að greiða þrotabúi EK1923 ehf. ríflega 324 milljónir króna auk vaxta frá árslokum 2016. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar Íslands sem kvað upp dóm sinn í málinu í dag.

Með dóminum sneri Hæstiréttur við dómi Landsréttar að hluta. Krafa þrotabúsins hljóðaði upp á riftun á ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 með skiptingu Eggerts Kristjánssonar, nafni annars þeirra var síðar breytt í EK1923, í tvö félög. Þá var krafist riftunar á 21 milljón króna greiðslu þrotabúsins til Sjöstjörnunnar og þess krafist að kyrrsetning á fjórum fasteignum, tveimur í eigu Sjöstjörnunnar og tveimur í eigu Skúla, yrði staðfest.

Í Landsrétti var fallist á það að rifta 21 milljón króna greiðslunni en ekki á fyrri riftunina. Af þeim sökum var kyrrsetningin felld úr gildi. Hæstiréttur komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu og féllst á kröfur þrotabúsins.

Var það mat réttarins að skiptingin á Eggerti Kristjánssyni hf. hefði falið í sér gjafagerning innan riftunarfrests. Sjöstjörnunni tókst ekki að sanna að félagið hefði verið gjaldfært þegar fasteignin var færð yfir í annað félag.

Þessu til viðbótar þarf Sjöstjarnan að greiða þrotabúinu 5 milljónir króna í málskostnað fyrir héraði, Landsrétti og Hæstarétti.

Stikkorð: EK1923