Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru það not­endur sam­fé­lags­miðilsins Truth Social sem eru að þrýsta upp genginu á Digi­tal World Acqu­isition, sér­hæfða yfir­töku­fé­laginu sem er ætlað að fara með miðilinn á markað.

Afar fáir fag­fjár­festar eru að kaupa bréf í DWA en gengi SPAC-fé­lagsins hefur hækkað um 140% á árinu.

Hlut­hafar Truth Social kjósa nú um hvort það eigi að fara með sam­fé­lags­miðilinn á markað. Ef svo verður er á­ætlað að hlutur Donald Trump, fyrrum Banda­ríkja­for­seta og stofnandi sam­fé­lags­miðilsins, sé metinn á um 3,5 milljarða Banda­ríkja­dali.

Trump hefur gengið treglega að leggja fram 454 milljón dala tryggingu vegna sektargreiðslu sem hann var dæmdur til að greiða fyrir að hafa ýkt virði eigna sinna til að fá betri lánakjör.

Ef marka má um­ræðu í um 8 þúsund manna þræði á Truth Social er ljóst að nær allir þeir sem eru að kaupa bréf í DWA séu að því til að styðja Trump.

Sam­fé­lags­miðla­not­endur Truth Social og hlut­hafar í DWA segjast vera að gefa for­setaframbjóðandanum fjárhagslega líf­línu.

Í engu samræmi við virði Truth Social

DWA er orðið nýjasta jarm­bréfið (e. meme stock) á markaði vestan­hafs en kaup­þrýstingurinn er sam­bæri­legur nú og þegar net­not­endur þrýstu upp genginu á tölvu­leikja­versluninni GameStop.

Sam­fé­lags­miðillinn Truth Social er hins vegar ein­stak­lega ó­arð­bær og hefur gert lítið annað en að brenna peninga frá stofnun. Fyrir­tækið skilaði tekjum í fyrsta sinn frá stofnun 2021 í fyrra en tapaði engu að síður 49 milljónum dala.

Gengi DWA er hins vegar í kringum 43 dali á hlut og segir Krist Marvin, for­stjóri SPA­CInsi­der, í sam­tali við WSJ að það sé engu sam­ræmi við virði Truth Social.

Auð­kenni hins sam­einaða fé­lags verður DJT sem eru upp­hafs­stafir Donald Trump.