Stuðnings­menn Donald Trump, fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna, eru á góðri leið með því að skila honum um 3,5 milljörðum Banda­ríkja­dala sem ætti að vera meiri en nóg til að koma for­seta­fram­bjóðandanum úr fjár­hags­vanda sínum.

Trump hefur gengið treg­lega að leggja fram 454 milljón dala tryggingu vegna sektar­greiðslu sem hann var dæmdur til að greiða fyrir að hafa ýkt virði eigna sinna til að fá betri lána­kjör.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er fast­eigna­veldi Trump metið á um 3 milljarða Banda­ríkja­dala en The New York Times greinir frá því að hann sé einungis með 350 milljónir dala í hand­bæru fé.

Gengi SPAC-félagsins DWA.
Gengi SPAC-félagsins DWA.

Sam­kvæmt WSJ hefur Trump gengið illa að fá lán gegn veði í fast­eignum sínum og að þá gæti það reynst honum dýrt að fara selja eignir með hraði enda er ó­lík­legt að hann fengi við­unandi verð fyrir.

Sér­hæfða yfir­töku­fé­lagið (e. SPAC) Digi­tal World Acqu­isition er hins vegar orðið nýjasta jarm­bréfið (e. meme stock) á markaði vestan­hafs en WSJ greinir frá því að fé­laginu sé ætlað að setja sam­fé­lags­miðilinn Truth Social á markað.

Stuðnings­menn Trump hafa verið að þrýsta verðinu upp og hækkaði gengi DWA um 18% í gær. Dagsloka­gengið var 43 dalir á hlut en sé miðað við það er markaðs­virði Truth Social um 6 milljarðar Banda­ríkja­dala.

Markaðsvirði í engu samsræmi við tekjur

Trump stofnaði Truth Social árið 2021 eftir að Twitter lokaði á að­gang hans að sam­fé­lags­miðlunum. Fyrir­tækið hefur tapað tug­milljónum Banda­ríkja­dala frá stofnun og hafa fjár­festar meðal annars verið sakaðir um inn­herja­svik.

Tekjur sam­fé­lags­miðilsins á síðustu þremur árum ná rétt í 5 milljónum Banda­ríkja­dala og seldi fé­lagið breytan­leg skulda­bréf fyrir 40 milljónir Banda­ríkja­dala til að halda sér á floti ný­verið.

Þetta skiptir þó engu máli svo lengi sem sam­fé­lags­miðillinn sam­einast sér­hæfða yfir­töku­fé­laginu.

Auð­kenni hins sam­einaða fé­lags yrði upp­hafs­stafir for­setans DJT en Trump myndi eiga um 60% í fé­laginu eftir skráningu og yrði hlutur hans metinn á 3,5 milljarða Banda­ríkja­dali.

Hlut­hafar Truth Social, sem eru allt stuðnings­menn Trump, eiga eftir að sam­þykkja sameininguna en sam­kvæmt WSJ gæti samfélagsmiðilinn verið kominn á markað strax í næstu viku.

Trump mætti þó ekki selja bréfin sín fyrr en sex mánuðum eftir út­boðið. Hann gæti þó engu að síður tekið lán með veð í bréfunum eða gert fram­virka samninga með þau.

Það er þó ó­lík­legt að hluta­bréfa­verðið verði ó­breytt í septem­ber­mánuði og gæti verðið jafn­vel hrunið vegna söluþrýstings þegar losnar um bréf Trump.