Málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum er löng og í samanburði við Noreg og ESB eru margfalt fleiri mál færð til frekari rannsóknar. Þetta kemur fram í grein sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS og María Kristjánsdóttir, lögmaður á LEX Lögmannsstofu, skrifuðu og birtist í Viðskiptablaðinu .

„Samkvæmt samkeppnislögum er málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum skipt í tvo aðskilda og skýra fasa, sem báðir lúta ströngum tímafrestum . Annars vegar er svokallaður fasi I , sem telur 25 virka daga frá því að fullnægjandi samrunatilkynningu er skilað til Samkeppniseftirlitsins. Hins vegar er fasi II , sem telur 90 virka daga til viðbótar. Samkeppniseftirlitið skal innan tímafrests fasa I tilkynna samrunaaðilum ef stofnunin telur ástæðu til frekari rannsókna á samkeppnislegum áhrifum samruna, sem færir umrætt samrunamál yfir á fasa II ," segir í grein Heiðrúnar og Maríu. Telja þær brýnt að úr málum sé alla jafna leyst í fasa I .

Með greininni er birt tafla þar sem afgreiðsla samrunamála Samkeppniseftirlitsins er borin saman við afgreiðslu framkvæmdastjórnar ESB og norska samkeppniseftirlitsins. Hérlendis eru á bilinu 39,5 til 48% mála færð í fasa II en sambærilegt hlutfall í ESB er 1,8 til 2,9% og í Noregi er þetta hlutfall 0 til 4,6%.

„Hvað sem ástæðum langrar málsmeðferðar hér á landi líður, þá breytir það ekki þeirri knýjandi þörf að úr þessu þarf að bæta. Ekki aðeins eru það hagsmunir viðskiptalífsins að kaup og sala fyrirtækja og rekstrareininga gangi skjótt fyrir sig, heldur hafa neytendur ekki síður af því hagsmuni að samkeppni sé virk og dýnamísk ," segir í grein Heiðrúnar og Maríu.