Austur-þýska leyniþjónusta Stasi taldi á sjöunda áratug síðustu aldar að Svavar Gestsson væri útsendari bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Svavar var á þessum tíma námsmaður í Austur-Berlín. Hann varð síðar formaður Alþýðubandalagsins, ráðherra og sendiherra. Svavar fór fyrir nefndinni sem gerði fyrstu Icesave-samningana svokölluðu árið 2009.

Sjálfsævisaga Svavars, Hreint út sagt, kemur út á morgun. Fréttablaðið fjallar um hana í dag. Þar er m.a. rifjað upp að eftir að Berlínarmúrinn féll árið 1989 hafi skjalasafn Stasi verið opnað. Í ljós kom að nafn Svavars væri að finna í skjölum leyniþjónustunnar. Hann var í kjölfarið bendlaður við Austur-þýsku leyniþjónustuna, jafnvel talinn hafa unnið fyrir hana á námsárum sínum.

Í bók Svavars segir að leyniþjónustan hafi þótt tíðar ferðir hans til Vestur-Berlínar grunsamlegar og skoðað einkabréf hans.