Gengi krónunnar hefur styrkst verulega, einkum í kjölfar hækkunar stýrivaxta Seðlabankans í byrjun desember sl. Fyrstu 11 mánuði ársins 2004 var gengið tiltölulega stöðugt og gengisvísitala krónunnar að jafnaði 121,6. Frá því í desember hefur vísitalan hins vegar lækkað og var komin í 110,3 í byrjun þessa mánaðar. Þessi þróun miðar að því að verðbólgumarkmið Seðlabankans fái staðist, sem er mikilvægt.

Á hinn bóginn hefur styrking gengisins alvarleg áhrif til hins verra á afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu sem eiga í samkeppni við erlend fyrirtæki í útflutningi eða á heimamarkaði.

Samtök atvinnulífsins hafa gert lauslega athugun á afkomu fiskvinnslunnar í ljósi nýjustu tiltækra upplýsinga um breytingar á helstu stærðum í rekstri. Byggir hún annars vegar á nýbirtum upplýsingum Hagstofunnar um hag fiskvinnslu og fiskveiða á árinu 2003. Hins vegar er tekið tillit til breytinga sem síðan hafa orðið á útflutningsverði, gengi, hráefnisverði, launum og öðrum kostnaði. Nánar tiltekið er í forsendum þessa mats tekið tillit til breytinga á verðvísitölu sjávarafurða og fiskaflans, launa-þróunar á almennum markaði og hækkunar annars kostnaðar miðað við vísitölu neysluverðs. Ekki er gert ráð fyrir magnbreytingum segir í frétt á heimasíðu SA.

Framlegð nú undir 4%

Þar segir ennfremur að framlegðin hefur yfirleitt verið á bilinu 7-9% af tekjum, en vegna m.a. hagstæðs gengis á árinu 2001 var afkoman mun betri það ár. Á síðasta ársfjórðungi í fyrra varð nokkur hækkun á verði sjávarafurða í erlendri mynt. Óhagstæð gengisbreyting að undanförnu vegur þó mun þyngra. Eins og myndin sýnir bendir niðurstaða þessa mats SA til þess að framlegð hafi hrapað úr tæplega 9% á árinu 2003 í innan við 4% í janúar á þessu ári. Opinberar upplýsingar um hag atvinnugreina eru að sjálfsögðu meðaltöl og er líklegt að veruleg dreifing sé á framlegð eftir fyrirtækjum. Framlegð sem nemur að meðaltali innan við 4% af tekjum er hins vegar það lág að líklegt verður að telja að við núverandi aðstæður sé meirihluti fiskvinnslufyrirtækja rekinn með tapi. Nýlegar fregnir af hópuppsögnum í fiskvinnslu á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn koma því engan veginn á óvart og ljóst að greinin mun áfram eiga verulega undir högg að sækja við óbreytt eða enn hærra gengi krónunnar.