Veitingastaðurinn Wilson‘s Pizza mun aftur líta dagsins ljós á morgun, 24. apríl, eftir níu ára fjarveru á veitingamarkaðnum. Nýi veitingastaðurinn verður staðsettur í Minigarðinum í Skútuvogi 2.

Stofnandi Wilson‘s Pizza var Vilhelm Einarsson frá Akureyri, en hann var jafnframt kallaður Wilson og þaðan kemur nafn staðarins.

Fyrsti staðurinn opnaði árið 2005 í Gnoðavoginum og árið 2013 voru veitingastaðir Wilson‘s Pizza á höfuðborgarsvæðinu orðnir fimm talsins. Tveimur árum seinna varð fyrirtækið hins vegar gjaldþrota en það hafði meðal annars skilað 24 milljóna króna tapi á árið 2012.

„Ég var ekki viss um að þetta væri góð hugmynd að fara aftur í að opna Wilson´s Pizza, en meðeigendur mínir í Minigarðinum voru alveg sannfærðir um að það væri tækifæri í að endurvekja Wilson‘s,“ segir Vilhelm Einarsson, stofnandi Wilson‘s Pizza.