Fyrir nokkrum árum voru gerðir frekar undarlegir sjónvarpsþættir sem gengu út á það að missa sem mesta þyngd á sem skemmstum tíma. Keppendur voru settir á sérstakt mataræði og æfðu nótt sem dag undir vökulu augnaráði þjálfara. Allt var gert til að ná þyngd þeirra niður sem hraðast og skyndilausnir voru allsráðandi.

Mér varð hugsað til þessara þátta þegar við kynntum umhverfisskýrslu okkar í sjávarútvegi. Árangurinn síðustu ár er hreint magnaður. Við höfum náð að minnka olíunotkun í sjávarútvegi um tæp 40 prósent frá 1990. Hlutfallið væri meira að segja nær 50% ef rafmagn hefði ekki verið skert til fiskimjölsverksmiðja umliðin misseri. Ef litið er til sjávarútvegs annarra ríkja, þá erum við í einstaklega öfundsverðri stöðu.

Engu að síður er gerð enn meiri krafa og markmiðið nú er 55% samdráttur í losun kolefnis á tímabilinu frá 2005 til 2030. Við ætlum ekkert að kvarta undan því. Sjávarútvegurinn hefur sýnt það að hann hefur skipulega og markvisst unnið að því að minnka losun, auka endurvinnslu og sinna umhverfinu.

Skyndilausnirnar duga nefnilega skammt þegar losna á varanlega við aukakílóin.

Því er ekki að neita að okkur þætti til dæmis vænt um að fá raforku til að geta haldið áfram á þessari leið, en hún finnst ekki. Nefndir stjórnvalda hafa líka nefnt nauðsyn þess að hvata fjárfestingar í tækni og sparneytnari skipum, enda er stutt til stefnu. Það hefur þó lítið orðið um efndir.

Okkur finnst áhersla stjórnvalda kannski full mikil á skyndilausnir, fremur en að byggja áfram á því sem vel hefur verið gert. Skyndilausnirnar duga nefnilega skammt þegar losna á varanlega við aukakílóin og þær eru beinlínis hættulegar þeim sem hefur þegar létt sig verulega. Frekari samdráttur í losun sjávarútvegs má ekki verða með þeim hætti. Burðarstólpi útflutnings og íslensks efnahagslífs verður ekki skráður í raunveruleikaþátt.