Ég byrjaði í smásölu þegar ég var 18 ára gamall og eins og flestir óharðnir unglingar þá byrjaði ég á gólfinu í verslun, en þar lærði ég helstu handtökin þegar það kemur að því að veita góða upplifun og þjónustu sem fylgja mér enn daginn í daginn. Nokkrum árum síðar ákvað ég að nota áhuga minn á verslun og þjónustu til að læra alþjóðlega markaðsfræði en á þeim tíma var farið að myndast nýtt hugtak sem heitir enn daginn í dag stafræn markaðssetning og vissi ég þá að hún myndi hafa stórkostleg áhrif á framtíðarstörf mín sem markaðsfræðing og síðar sérfræðingi í vefverslunum og stafrænni þróun.

Eru allar breytingar góðar?

Nú nokkrum árum síðar og eftir að hafa farið gegnum í starfi mínu samfélagsmiðabyltinguna, endalausar nýjungar í tækni, ofgnótt af nýjum tólum til að læra á og síðast en ekki síst vöxt vefverslana á heimsvísu í Covid, virðist vera komin nýr einhyrningur á ballið sem við köllum gervigreind.

Óhætt er að segja að hún muni ekki bara hafa áhrif á verslun og þjónustu heldur eru blikur á lofti að hún munu breyta mannkyninu og mun hafa áhrif á ýmiskonar störf í framtíðinni, hvort sem okkur líka það betur eða verr.

Er framtíðin Phygital í verslun og þjónustu?

Áður en við tölum um áhrif gervigreindar eða AI í (vef) verslun er mikilvægt að kynna nýlegt hugtak til leiks sem kallað er Phygital, og í stuttu máli snýr það að samþættingu milli þess sem gerist í kjötheimum og í hinum stafræna heimi. Ef við hugsum um hefðbundna verslun og svo vefverslun í smásölu er markmiðið með Phygital að skapa heildræna upplifun notenda á mismunandi rásum fyrir nútíma viðskiptavini. Tækninýjungar á borð við sýndarveruleika og Internet hlutana munu hafa áhrif hvernig fyrirtæki geta aukið á upplifun viðskiptavina sinna, aukið viðskiptavild og síðast en ekki síst haft áhrif á heildarsölu fyrirtækja.

Áhrif gervigreindar á vefverslun

Gervigreindin er nú þegar farin að hafa áhrif í vefverslun á Íslandi og megum við búast við að sjá enn fleiri breytingar á næstu árum. Gervigreindin mun hafa áhrif á meðal annars:

Þjónustu á netinu

Loksins verður hægt að fá alvöru þjónustu á netinu með rauntíma gervigreindar spjallbottum í gegnum allt kaupferlið á íslensku, en þessi liður mun auka þjónustu og upplifun til muna fyrir neytendur til lengri tíma litið, en verður eflaust vandræðaleg til að byrja með.

Sérsniðnar upplifanir fyrir notendur

Gervigreindaralgrímar mun nota gögnin þín og upplýsingar til að veita þér persónulega þjónustu, hún mun mæla með sérstökum vörum út frá kauphegðun þinni og senda þér sérsniðin markaðsskilaboð rétt eins og sölumaður í verslun sem þekkir sína fastakúnna með nafni og veit hvað þú elskar.

Efnisköpun fyrir vefverslun mun blómstra

Nú þegar eru fyrirtæki farinn að nota gervigreind til að búa til efni fyrir auglýsingar, skrifa vörulýsingar, leitarvélabesta vefi, útfæra lendingarsíður en þetta mun auðvelda fyrirtækjum að sérsníða upplifanir tengdar vörum. Þeir sem ætla ekki að vanda sig í efnissköpun munu tapa.

Dýnamísk verðlagningu

Gervigreindaralgrímar munu hlusta á markaðsstrend, verð samkeppnisaðila og fylgjast með notendahegðun til að fínstilla verð með sjálfvirkni að vopni. Þetta mun hjálpa fyrirtækjum að vera samkeppnishæfari með því að beita verðstrategíum í rauntíma. Það getur margborgað sig að hlusta hærra.

Aðfangkeðjan bestuð

Gervigreindin mun bæta aðfangakeðjuna til muna og spá fyrir raunverulegri vöntun vara og besta birgðastýringu ásamt því að straumlínulaga ferla. Þetta mun minnka kostnað og tryggir að vörur skili sér á réttum tíma á réttum stað.

Netöryggi og fyrirbyggjandi aðgerðir

Gervigreindaralgrímar munu sjá mynstur og greina kaupfærslur til að koma í veg fyrir þjófnað á netinu í rauntíma, með fyrirbyggjandi aðgerðum til að tryggja að fyrirtæki og neytendur hljóti ekki fjárhagslegan skaða.

Hver þarf lyklaborð - Verslaðu með röddinni

Með vinsældum Alexa og Google Home munum við sjá fleiri lausnir verða til á íslensku með tilkomu Chat GPT og hver veit nema við verslum í matinn með því að tala við vefverslunina í stað þess að nota lyklaborð.

Myndgreining og sjónræn leit

Gervigreindin mun auðvelda notendum að leita af vörum með því að nota myndir í stað texta sem mun bæta leitar upplifun og hjálpa notendum að finna nákvæmlega það sem þeir eru að leita af með fljótlegri hætti en þekkist í dag.

Hver er framtíð fyrirtækja í verslun og þjónustu óháð gervigreind?

Sumir hlutir breytast ekki á einni nóttu og líkt og þegar ég var að byrja minn feril í smásölu þá bý ég enn að góðum gildum og mikilvægum lærdómi sem ég nota enn daginn í dag sem vegvísir í mínu starfi óháð nýjustu tækjum og tólum en fyrirtæki þurfa að huga að:

● Að eiga réttu vörurnar, á réttum tíma á sanngjörnu verði.

● Að þekkja viðskiptavini sína betur en samkeppnin og veita framúrskarandi þjónustu.

● Að eiga í samtali við viðskiptavini sína og þora að veðja á upplifanir.

Og síðast en ekki síst þurfa fyrirtæki að vera forvitin.

Einhyrningurinn og Algrímarnir

Þegar öllu er á botninum hvolft mun gervigreindin gjörbylta notendaupplifun, gera rekstur fyrirtækja skilvirkari, keyra fram vöxt fyrirtækja og gera þeim kleyft að taka gagnadrifnar ákvarðanir og sjálfvirknivæða ferla til að stikla á stóru.

Framtíðin verður án efa Phygital í verslun og þjónustu þar sem við fléttum saman raunheimum og hinum stafræna heimi með hjálp gervigreindar til þess að gera upplifun kaupenda enn áhrifaríkari og verslunarferðina betri, hvort sem það er í verslunum eða í vefverslun.

Besti tíminn til að byrja að kynna sér gervigreind var í gær en næstbesti tíminn er núna í dag og munið að Róm var ekki byggð á einum degi, en hún féll að lokum eins og spilaborg.

Ekki vera Róm.

Einar Thor er sérfræðingur í vefverslunum, gervigreind og stafrænni þróun.

Greinin birtist í sérblaði sem gefið var út vegna afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.