Hagaðilar og eftirlitsaðilar leggja stöðugt meiri áherslu á sjálfbærniupplýsingar og mikilvægt er að öll fyrirtæki undirbúi sig fyrir auknar kröfur í þeim efnum. Þróunin er í þá átt að til lengri tíma verða gerðar sömu kröfur til gerð sjálfbærniskýrslna og til ársreikninga hvað varðar vandaða, ítarlega og áreiðanlega upplýsingagjöf.

Fyrir liggur að tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja mun verða innleidd í íslensk lög og er vinna við innleiðinguna þegar hafin. Tímasetning innleiðingar á Íslandi liggur ekki fyrir en í tilskipun Evrópusambandsins er miðað við ársbyrjun 2024 fyrir stærri félög og síðan munu önnur félög fylgja í kjölfarið. Innleiðingin mun hafa það í för með sér að viðamiklir staðlar (ESRS) um framsetningu sjálfbærniupplýsingaverða innleiddir og félögum gert skylt að afla sér óháðrar staðfestingar á sjálfbærniskýrslur sínar.

Hvernig staðfestingar er þörf?

Til að byrja með verður staðfestingin minni að umfangi en þekkist við endurskoðun ársreikninga og er talað um staðfestingu með takmarkaðri vissu í því sambandi eða „limited assurance“ og má til einföldunar líkja þeirri staðfestingu við það sem nú þekkist sem könnun árshlutareikninga. Til lengri tíma hefur Evrópusambandið gefið það út að stefnt sé að því að ganga lengra og gera í fyllingu tímans sömu kröfur um staðfestingu sjálfbærniskýrslna og við endurskoðun fjárhagsupplýsinga, svokallaða nægjanlega vissu eða „reasonable assurance“. Gert er ráð fyrir því að sjálfbærniskýrsla verði árituð á sama tíma og ársreikningur sem verður áskorun fyrir mörg fyrirtæki.

Ofangreint hefur í för með sér miklar áskoranir fyrir fyrirtæki. Ekki bara þarf að afla þekkingar um hvað sjálfbærni snýst, móta stefnu, verkferla og mælikvarða og innleiða þetta allt saman heldur þarf líka að útbúa sjálfbærniskýrslu og fá hana staðfesta af löggiltum endurskoðanda.

Mörg fyrirtæki eru löngu byrjuð að undirbúa sig og taka nú þegar mið af ESRS stöðlunum við gerð sjálfbærniskýrslna á meðan önnur fyrirtæki hafa ekki ennþá hafið sjálfbærnivegferðina. Flest fyrirtæki eru síðan einhvers staðar þarna á milli.

Mikilvægt að byrja strax

Fyrirtæki þurfa að huga að sinni sjálfbærnivegferð eins fljótt og auðið er til þess að vera tilbúin þegar krafist verður af þeim að safna gögnum, meta og mæla árangur og birta skýringar og lykilmælikvarða.

Þegar kemur að staðfestingunni er mikilvægt að fyrirtæki séu undirbúin þannig að ferlar og gögn séu tæk til óháðrar staðfestingar og að ekki verði um óvæntar uppákomur að ræða. Raunveruleg hætta er á að félag gæti lent í þeirri stöðu að ekki verði hægt að árita sjálfbærniskýrsluna sem væri mjög óheppilegt.

Langt er síðan fjárhagsskýrslugerð hófst og óháð staðfesting hennar en við erum rétt í startholunum með sjálfbærniskýrslurnar. Þar af leiðandi eru ferlar við samantekt gagna og gerð skýrslu kannski ekki eins þróaðir og ferlar við fjárhagsskýrslugerð. Við erum öll að læra mjög hratt og því er fullkomlega eðlilegt að ferlar innan fyrirtækja séu í þróun og kannski ekki við öðru að búast.

Hentar þessi leið?

Í löndunum í kringum okkur er nokkuð þekkt að fyrirtæki mæta þeirri áhættu að skýrslan verði ekki tæk til endurskoðunar þegar lagakröfurnar taka gildi með því að fá endurskoðanda félagsins til að leggja mat á á gæði ferla og upplýsinga áður en vinna hefst við óháða staðfestingu.

Þá er staðan yfirfarin og fyrirtækið fær skýrslu um niðurstöðuna sem aðeins er til innri nota. Með þeim hætti eru fyrirtæki komin með verkfæri í hendurnar til að fara í úrbætur eftir þörfum og draga þá úr líkunum á að sjálfbærniskýrslan verði ekki tæk til staðfestingar þegar á hólminn verður komið. Hvet ég fyrirtæki til að skoða hvort þessi leið er eitthvað sem hentar þeim.

Margrét Pétursdóttir er meðeigandi á endurskoðunarsviði KPMG.