Hugmyndin um tryggingar hefur fylgt mannkyni allt frá því að samfélög tóku að myndast, það er sú hugsun að ef einstaklingur verður fyrir tjóni grípi samfélag fólks hann og geri honum kleift að koma aftur undir sig fótunum. Með tryggingum dreifist áhættan vegna tjóna þannig á fleiri, hún færist af einstaklingum yfir á samfélag og við tökumst saman á við óvænt áföll.

Þegar Sjóvátryggingafélag Íslands var stofnað árið 1918 hafði fólki sviðið um nokkurt skeið að hér á landi væri ekki starfandi innlent almennt vátryggingafélag heldur aðeins umboðsskrifstofur erlendra félaga. Með stofnun félagsins var því stigið fyrsta skrefið hér á landi af einstaklingum til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Það var trú fólks að með þeim hætti væri betur hægt að mæta þörfum viðskiptavina, veita þeim betri þjónustu og sinna um leið betur eiginlegu hlutverki trygginga.

Íslendingar eru vel tryggðir

Við hjá Sjóvá höfum skilgreint hlutverk okkar sem það að tryggja verðmætin í lífi fólks. Til að geta sinnt því hlutverki eins og best verður á kosið er nauðsynlegt fyrir okkur að vera í stöðugu og góðu sambandi við viðskiptavini okkar, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki. Við höfum því lagt ríka áherslu á að eiga frumkvæði í samskiptum við viðskiptavini okkar og hlusta vel á þá. Við fáum einnig fjölmörg tækifæri til að eiga í samskiptum við viðskiptavini okkar þegar þeir verða fyrir tjóni en yfir 39.000 tjón voru tilkynnt til okkar á síðasta ári, eða sem nemur 107 tjónum á dag. Þá erum við til staðar, hvenær sem er sólarhringsins.

Við þurfum einnig að fylgjast vel með allri samfélagsþróun til að geta mætt þörfum fólks fyrir tryggingavernd hverju sinni. Á heildina litið eru Íslendingar vel tryggðir og vilja vera það. Mikilvægt er að vörur okkar endurspegli lífsstíl fólks og aðstæður, sem sannarlega hafa tekið miklum breytingum í áranna rás. Ný verðmæti hafa orðið til og önnur horfið, fjölskyldumynstur er orðið fjölbreyttara, sem og bakgrunnur fólks, og tómstundaiðkun er orðin ríkari þáttur í lífi margra. Þarfirnar eru orðnar fleiri og fjölbreyttari og mikilvægt að við séum stöðugt að greina þær og mæta þeim.

Fyrirtækjarekstur á Íslandi hefur sömuleiðis tekið miklum breytingum. Fyrirtæki sem starfa hérlendis eru í dag af öllum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum í sjálfstæðum rekstri til stórra fyrirtækja með umfangsmikla alþjóðlega starfsemi. Það er okkar að bjóða upp á vörur og þjónustu sem henta þörfum þessara ólíku hópa, ekki hvað síst þegar á reynir.

Stafrænum lausnum fylgir þó oftar en ekki meiri ávinningur en bara bætt þjónusta.

Ávinningur starfrænna lausna

Við þurfum ekki síður að fylgjast vel með hvernig viðskiptavinir okkar kjósa að eiga í samskiptum við okkur enda gerir ör tækniþróun okkur mögulegt að bjóða upp á sífellt fjölbreyttari þjónustuleiðir. Lykilatriði er að taka mið af því sem hentar viðskiptavininum best hverju sinni. Sumir vilja geta afgreitt sín mál sjálfir þegar þeim hentar og þá eiga þeir þann valkost. Aðrir vilja eiga samtal með tölvupósti og enn aðrir vilja einfaldlega koma til okkar. Við höfum því lagt ríka áherslu á að þróa stöðugt stafrænar lausnir, um leið og við höldum úti öflugu útibúaneti um allt land. Ólíkar þjónustuleiðir styðja enda vel hver við aðra og gera okkur kleift að veita framúrskarandi þjónustu.

Stafrænum lausnum fylgir þó oftar en ekki meiri ávinningur en bara bætt þjónusta. Þannig hefur okkur hjá Sjóvá sem dæmi tekist að spara um 42 þúsund kílómetra akstur árlega frá því við byrjuðum að skoða tjón með rafrænum hætti. Það er mikilvægur hluti af starfi okkar að vera alltaf með augun opin fyrir tækifærum sem tækninýjungar bjóða upp á, einnig til að geta hagað starfseminni með sem sjálfbærustum hætti.

Þótt sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð fái sífellt aukna athygli í starfsemi tryggingafélaga er óhætt að segja að þessir þættir hafi í raun alltaf verið samofnir tryggingum, eðli starfseminnar vegna. Forvarnir hafa sem dæmi alltaf verið mikilvægur hluti tryggingastarfsemi, þó að vissulega hafi vægi þeirra aukist. Það er okkur hjá Sjóvá mikið kappsmál að nýta þekkingu okkar til að koma í veg fyrir hverskyns tjón, óhöpp eða slys, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum. Hér er enda mikið í húfi fyrir samfélagið allt. Okkar besta ráðgjöf er alltaf að koma í veg fyrir eða lágmarka afleiðingar tjóna.

Samstarf er lykilatriði

Síðari árin hefur einnig komið skýrt í ljós hversu gríðarlega sóun er oft hægt að koma í veg fyrir með að fækka tjónum og bregðast rétt við þeim tjónum sem upp koma. Gott dæmi um slíkt eru framrúðutjón, sem eru of algeng á Íslandi. Með því setja lítinn framrúðuplástur á stjörnu sem hefur myndast í rúðu eftir steinkast er hægt að stórauka líkurnar á að hægt sé að gera við hana. Útreikningar verkfræðistofu sýna að viðgerð á framrúðu losar um 24þúsund sinnum minni koltvísýring en það að skipta um hana svo hér er til mikils að vinna. Við hjá Sjóvá höfum náð góðum árangri með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum á verkstæðum í að auka hlutfall framrúðuviðgerða og minnka þar með sóun. Við erum stöðugt að leita uppi fleiri slík tækifæri í tjónaþjónustu okkar, með hag viðskiptavina og samfélagsins alls að leiðarljósi.

Samstarf er lykilatriði til að árangur náist á sviði forvarna. Við höfum verið afar lánsöm með samstarfsaðila í gegnum tíðina og unnið að fjölbreyttum forvarnarverkefnum með ýmsum öflugum aðilum. Áratugalangt samstarf okkar við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu hefur sem dæmi gefið ríkulega af sér á sviði forvarna, nú síðast með komu þriggja nýrra björgunarskipa til landsins sem Sjóvá styrkti kaupin á. Það verkefni sýnir vel hvernig hægt er að gera gott samfélag enn betra og öruggara í krafti samtakamáttsins.

Þó að margt hafi breyst frá stofnun Sjóvár má segja að kjarni starfseminnar sé í grunninn enn sá sami. Við erum bakhjarl einstaklinga og fyrirtækja þegar á reynir. Því hlutverki getum við sinnt af sanngirni og umhyggju með því að vera í stöðugu og góðu sambandi við viðskiptavini og fylgjast vel breytingum í samfélaginu. Með öflugum mannauði sem hefur metnað til að veita framúrskarandi þjónustu hefur okkur tekist að auka traust viðskiptavina okkar stöðugt og vaxa á markaði. Fyrir það erum við þakklát. Við hlökkum því til að halda áfram að vinna eftir skýrri framtíðarsýn og veita tryggingaþjónustu og ráðgjöf sem skapar traust og hugarró í lífi viðskiptavina okkar.

Höfundur er forstjóri Sjóvár.