Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur með aðstoð breskra sérfræðinga uppgötvað eilífðarvélina og leiðina að óendanlegum hagvexti. Málið er bara að niðurgreiða kvikmyndagerð hér á landi nógu mikið.

Ráðuneytið stóð fyrir ráðstefnu um kvikmyndagerð í síðustu viku. Þar voru kynntar niðurstöður skýrslu sem breska ráðgjafarfyrirtækið Olsberg SPI gerði fyrir íslenska ríkið. Þær voru meðal annars að Íslendingar eru öðrum þjóðum fremri þegar kemur að niðurgreiðslu kvikmyndaverkefna og að hver króna sem ríkið ver til þess arna skili sér sjöfalt til baka.

Til að rökstyðja þá fullyrðingu að hver króna sem er notuð til niðurgreiðslu kvikmynda-
verkefna hér á landi draga skýrsluhöfundar fram að ýmiss konar þjónusta er keypt hér á landi vegna slíkra verkefna og að þeir sem starfa að verkefnunum skreppi á kaffihús og fari með föt í efnalaug svo vísað sé beint til þeirra dæma sem eru tekin í skýrslunni.

Þetta er allt gott og blessað. En þarna er algjörlega litið fram hjá þeirri staðreynd að þeir peningar sem eru nýttir til niðurgreiðslu erlendra kvikmyndaverkefni hér á landi eru teknir frá skattgreiðendum.

***

Skýrsluhöfundar áætla að á tímabilinu 2019 til 2022 hafi íslenska ríkið ráðstafað á bilinu 9,7 til 28,9 milljörðum króna af skattfé þegna þess lands á ári hverju í endurgreiðslur vegna framleiðslu erlendra kvikmynda og sjónvarpsþátta. Fullyrt er að 86% þessara útgjalda hefðu ekki átt sér stað á Íslandi ef ekkert endurgreiðslukerfi væri fyrir hendi.

Er það virkilega?

***

Þessir tugir milljarða sem eru teknir frá skattgreiðendum vegna endurgreiðslu ríkisins á erlendri kvikmyndaframleiðslu hefðu svo sannarlega haft sín efnahagslegu áhrif. Rétt eins og Russell Crowe eða Jodie Foster hefðu skattgreiðendur notað þetta fé til þess að borða á veitingastöðum og kaupa sér aðra þjónustu eða þá að verja það í sparnað sem svo umbreytist í fjárfestingu.

Týr gefur sér að hvorki bresku sérfræðingarnir né ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi heyrt minnst á franska hagfræðinginn Frédéric Bastiat og skrif hans um brotnu rúðuna. Svona delluhagfræði er hvorki ráðherrum né öðrum til neins gagns.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 17. apríl 2024.