Í síðustu viku birtist áhugavert viðtal Sindra Sindrasonar í Íslandi í dag við Jensínu Eddu Hermannsdóttur, skólastýru Laufásborgar, sem er einkarekinn Hjallastefnuleikskóli. Hann er einn sá vinsælasti á landinu en til marks um það kom fram í viðtalinu að um 400 börn eru nú á biðlista eftir plássi á leikskólanum. Í viðtalinu varpaði Sindri meðal annars fram þeirri spurningu hvort einkageirinn sé einfaldlega metnaðarfyllri og betri en sá opinberi. Viðskiptablaðið telur svarið við þeirri spurningu mjög augljóst, líkt og þetta tiltekna dæmi sannar ágætlega.

Eins og biðlistinn gefur til kynna vill verulegur fjöldi foreldra koma barni sínu inn á leikskólann. Leikskólinn er þó ekki aðeins vinsæll meðal foreldra því hann er einnig eftirsóttur vinnustaður. Starfsmannavelta er mjög lítil og þegar rennt er yfir starfsmannalistann á heimasíðu leikskólans má sjá að flest allir hafa starfað þar lengi og sumir mjög lengi. Það bendir sterklega til þess að starfsánægja sé mikil.

Þeir sem kynnst hafa opinbera leikskólakerfinu vita að þetta er svo sannarlega ekki raunin mörgum leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögunum. Starfsmannavelta er víða hvar mikil og óánægjuraddir heyrast reglulega. Það er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að hver leikskólinn á fætur öðrum í Reykjavíkurborg, og víðar, neyðist til að flýja vistverur sínar sökum myglu.

Í máli leikskólastýrunnar kom eins og fyrr segir margt áhugavert fram. Af áhorfi viðtalsins að dæma kappkosta stjórnendur leikskólans við að þjónusta „viðskiptavininn“, sem eru auðvitað númer eitt, tvö og þrjú börnin en einnig foreldrar þeirra, eins vel og mögulegt er.

Jensína kom einmitt inn á það að það væri eðli kerfa að verja eigin tilverurétt í stað þess að einblína á það sem raunverulega skipti máli – sem er þjónustuþeginn sjálfur. Þarna hitti hún sannarlega naglann á höfuðið.

Margir sem hafa þurft að reiða sig á þjónustu hins opinbera, hvort sem það er heilbrigðisþjónusta, leikskóla- og skólaþjónusta, snjómokstur, sorphirða og svo mætti lengi telja hafa rekið sig á nákvæmlega það sama. Kerfin virðast fyrst og fremst leggja áherslu á að þjóna sjálfum sér og þeim sem starfa innan þeirra. Fyrir vikið mæta þarfir þjónustuþeganna, sem eru t.d. börn, foreldrar og sjúklingar, algjörum afgangi. Þetta er miður enda þarf engan sérfræðing til að átta sig á að tilgangur kerfanna er einmitt að þjónusta fólkið í landinu en ekki öfugt. Einkarekið fyrirtæki sem myndi fyrst og fremst huga að eigin þörfum og sinna starfsmanna í stað viðskiptavina yrði sem dæmi seint talið líklegt til afreka.

Þegar kemur að vandamálum í opinberum leikskólum er ekki við stjórnendur og starfsfólk þeirra að sakast heldur pólitíkina, sem ræður einfaldlega ekki við verkefnið. Það er kannski erfitt að gera þessar kröfur til stjórnmálamanna, þegar haft er í huga að þeir hafa ekki enn fundið lausn á því að losa yfirfullar ruslatunnur þegna sinni.

Dæmin þar sem kerfið hugsar fyrst og fremst um eigin þarfir eru mýmörg. Stytting vinnuvikunnar eru gott dæmi þess en sú aðgerð hefur m.a. haft í för með sér skerta opnunartíma á leikskólum og opinberrar stofnanir skella flest allar í lás í hádeginu á föstudögum. Sem sagt þjónustan hefur verið skert með tilheyrandi óþægindum fyrir foreldra á almennum vinnumarkaði og aðra sem þurfa að reiða sig á þjónustu hins opinbera.

Í ljósi ofangreinds verður að teljast með miklum ólíkindum hve miklir fordómar ríkja meðal sumra í garð þess að færa fleiri verkefni frá hinu opinbera til einkaframtaksins. Umfjallanir á borð við þá sem hefur verið rekin í fjölmiðlum um hjúkrunarheimilið Sóltún, sem virðist hafa þann eina tilgang að sverta orðspor einkafyrirtækisins, kann að eiga hlut í því að sumir Íslendingar hafa óbeit á að einkaaðilar komi í auknum mæli að þjónustu við íbúa landsins.

Aftur á móti þegar nánar er að gáð er það svo að almenn ánægja virðist ríkja meðal landsmanna með þá þjónustu sem einkaaðilar bjóða upp á, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Þannig hefur könnun á vegum Sjúkratrygginga Íslands leitt í ljós að meiri ánægja mælist hjá viðskiptavinum einkarekinna heilsugæslustöðva en hjá þeim sem sækja þjónustu stöðva sem eru reknar af hinu opinbera.

Aðkoma einkaaðila að þjónustu sem að mestu er greidd af hinu opinbera hefur í flestum tilfellum heppnast mjög vel og skilað sér í betri þjónustu. Laufásborg, aðrir Hjallastefnuleikskólar og Klíníkin í Ármúla eru fáein dæmi sem sanna það. Það væri því til bóta ef þeir sem halda um stjórnartaumana myndu taka Laufásborg sér til fyrirmyndar og setja viðskiptavininn í fyrsta sæti. Þar gæti einkaframtakið svo sannarlega veitt hjálparhönd.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. apríl 2024.