Greinilegt er að fylgi Pírata á landsvísu hefur smitast inn í borgarpólitíkina, ef marka má skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og greint er frá í blaðinu í dag.

Hin mikla fylgisaukning Pírata þýðir að meirihlutinn í borginni stendur bersýnilega styrkari en áður, þrátt fyrir hrun Bjartrar framtíðar og illa laskaðan borgarstjórann. Þar, líkt og í landsmálunum, setja menn traust sitt á hinar hreinu meyjar Pírata, en það má líka minnast á það að í kjölfar þess að meirihlutinn samþykkti að sniðganga ísraelskar vörur var það einmitt borgarfulltrúi Pírata, Halldór Auðar Svansson, sem var sá eini til þess að biðja kjósendur afsökunar á frumhlaupi sínu.

Í ljósi þess hvernig enn kvarnast af Samfylkingunni, þótt hún sé þó enn nær þrisvar sinnum vinsælli í borg en á landsvísu, hlýtur borgarstjórinn að hugsa um sína pólitísku ábyrgð.

En pólitísk ábyrgð einskorðast ekki aðeins við valdhafana. Af þessari könnun er einnig hróplegt að þrátt fyrir öll vandræði meirihlutans hefur minnihlutinn ekki náð nokkru fylgi. Framsókn er komin langt undir kjörfylgi og því augljóst að jafnvel gallharðir framsóknarmenn hafa skömm á borgarfulltrúunum tveimur.

En hvað má þá segja um Sjálfstæðisflokkinn, sem ætti að hafa öll tækifæri til þess að ná sér á strik. Hann hefur nálgast fjárhagsvanda borgarinnar af ábyrgð og lagt fram raunhæfar tillögur um úrbætur. Í viðskiptabannsmálinu var einnig augljóst að sjálfstæðismenn áttu samleið með þorra borgarbúa. Þrátt fyrir það molnar fylgið áfram af þeim. Eðlilegt er því að spyrja hvort oddviti minnihlutans eigi ekki að axla sína pólitísku ábyrgð.

Fjölmörg dæmi eru um það hjá Sjálfstæðisflokknum að oddvitar hafi stigið til hliðar af því að fylgi flokksins hefur ekki verið í samræmi við væntingar. Má þar t.d. nefna það þegar MarkúsÖrn Antonsson hætti þegar flokkurinn mældist í 45,2% árið 1994 og þegar Árni Sigfússon hvarf á braut þegar flokkurinn fékk 45,2% árið 1998. Þetta eru ekki einu dæmin um að axla ábyrgð hjá flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,7% atkvæða í kosningunum 2014 og mældist með 25,3% í könnun sem framkvæmd var í nóvember og desember síðastliðnum. Nú mælist flokkurinn með 23,4% fylgi og enn situr Halldór sem fastast. Erfitt er að sjá Halldór vinna flokkinn upp úr þessum öldudal og lítið fer fyrir honum í minnihlutastarfinu. Það eru miklu fremur óbreyttir borgarfulltrúar flokksins sem meira hefur borið á undanfarið.

Halldór hefur nefnilega nóg að gera annað en að leiða stærsta stjórnarandstöðuflokkinn í borginni. Hann er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og þiggur þar þægileg laun fyrir. Hann er svo sem ekki fyrstur sjálfstæðismanna til að gegna stjórnarformennsku í sambandinu, því Vilhjálmur Vilhjálmsson var formaður þess lengi vel, en það gerir ekki góða stöðu betri. Það er ansi sleipur slóði sem oddviti stjórnarandstöðuflokks þarf að feta þegar hann situr, í skjóli meirihlutans, í stjórnarformannsstóli í Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Hvernig sem á er litið, er þessi könnun ákall um breytingar í borgarstjórn. Dagur þarf ljóslega að hugsa sig vel um í borgarmálunum, svo ekki sé talað um það hvort hann þurfi ekki að hugsa sér til hreyfings ef takast á að bjarga Samfylkingunni frá hægum og kvalafullum dauða í þinginu. Minnihlutinn þarf einnig að hugsa sinn gang og oddvitinn sinn útgang.