*

miðvikudagur, 20. mars 2019
Innlent 13. mars 2019 21:02

Bandaríkin kyrrsetja Boeing 737 Max

Búið er að kyrrsetja allar Boeing 737 Max flugvélar eftir yfirlýsingu Donald Trump og nýjar upplýsingar um flugslysið í Eþíópíu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bankarísk flugmálayfirvöld hafa látið kyrrsetja allar Boeing 737 Max flugvélar. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti þetta fyrr í kvöld að því er New York Times greinir frá.

Tilkynningin kom skömmu eftir að Marc Garneau, samgöngumálaráðherra Kanada, gaf út að margt bendi til þess að tengsl séu á milli flugslysa Lion Air í október og Ethiopian Airlines á sunnudag þar sem allir um borð létust.

Boeing er í vanda vegna málsins en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 13% í vikunni. Búið er að afhenda á fjórða hundrað flugvélar af þessari gerð en alls hafa um fimm þúsund flugvélar verið pantaðar.

Icelandair kyrrsetti sínar þrjár Boeing 737 Max 8 flugvélar í gær eftir að evrópsk flugmálayfirvöld höfðu bannað vélarnar í sinni lofthelgi. Félagið hefur áætlað að taka fleiri slíkar vélar í notkun og er gert ráð fyrir þeim í sumaráætlun flugfélagsins.

Nánar verður fjallað um áhrif af kyrrsetningu Boeing 737 Max flugflotans á Icelandair í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.