Skuldabréfakóngurinn Bill Gross hefur höfðað mál gagnvart sínum gamla vinnuveitenda, Pacific Investment Management Co (PIMCO) vegna ólögmætar brottvísunar. Vill hann fá 200 milljónir dollara í skaðabætur, en hann vill meina að gráðugir stjórnendur sem vildu stærri bónusa fyrir sjálfan sig hafi bolað honum í burtu.

Tilkynnt var um brotthvarf Gross frá Pimco þann 26. september 2014, en aðdragandinn var nokkuð dramatískur.Áður en Gross yfirgaf fyrirtækið hafði næstráðandi hans. Mohammed El Erian, horfið á braut vegna ósættis.

Gross var leiðandi í uppbyggingu Pimco og hjálpaði fyrirtækinu að auka umsvif sín á skuldabréfamarkaði upp í 2 billjónir Bandaríkjadollara. Fékk hann þar viðurnefnið "Skuldabréfakóngurinn" (e. Bond king). Eftir að hann yfirgaf Pimco tók hann við stjórnartaumunum hjá Janus Clobal Unconstrained Bond Fund fyrir hönd Janus Capital Group.

Gross er metinn á milljarða dollara en heldur því fram að hann hafi átt von á 250 milljóna dollara bónus frá Pimco undir árslok 2014. Sakar hann fyrirtækið því um samningsbrot og ýmislegt annað, en talsmaður Pimco vísar öllum ásökunum Gross á bug.