*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 1. júlí 2012 18:23

Cameron íhugar kosningu um veru Breta í ESB

Forsætisráðherra Bretlands segist opinn fyrir því að leyfa bresku þjóðinni að kjósa um áframhaldandi veru Breta í ESB.

Ritstjórn
Associated Press

 

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segist vera tilbúinn að íhuga þjóðaratkvæðagreiðslu um samskipti Bretlands við Evrópusambandið (ESB) en slík atkvæðagreiðsla þyrfti að koma til á réttum tíma eins og hann orðar það í aðsendri grein í breska blaðinu Sunday Telegraph í dag.

Innan breska íhaldsflokksins hefur nokkuð verið fjallað um samskipti og veru Breta í ESB og ekki er langt síðan 100 þingmenn flokksins sendu Cameron bréf þar sem þeir fóru fram á að kosið yrði um áframhaldandi veru Breta í sambandinu. 

Það sem flækir málið er að frjálslyndir demókratar, sem mynda meirihlutastjórn með Íhaldsflokknum, eru harðir talsmenn aukins Evrópusambandssamruna og þ.a.l. veru Breta í sambandinu. Forsvarsmenn frjálslyndra demókrata hafa sagt í dag að grein Cameron sé aðeins til þess fallin að friða stríðandi fylkingar innan Íhaldsflokksins.

William Hague, utanríkisráðherra Breta og samflokksmaður Cameron, sagði í samtali við BBC í dag að það væri full ástæða til að íhuga þjóðaratkvæðagreiðslu fari svo að ESB horfi til aukins samruna og færist frekar í áttina að því að verða sambandsríki en ríkjabandalag (líkt og það er nú) í kjölfar evrukrísunnar svokölluðu. Þar vísaði Hague til þess að margir forsvarsmenn ESB hafa á síðustu vikum og mánuðum talað fyrir aukinni miðstjórn af hálfu Evrópusambandsins, m.a. því að fjárlög ríkja þurfi að hljóta samþykki í Brussel til að reyna að koma í veg fyrir samskonar krísur og hafa orðið í Grikklandi og á Spáni.

Hague tók þó fram að hann væri ekki fylgjandi því að Bretland gengi að óbreyttu úr ESB.