Í kjölfar viðræðna milli LME eignarhaldsfélags ehf., Stork N.V. og London Acquisition N.V., eignarhaldsfélagi stjórnað af Candover, hefur London Acquisition N.V. framlengt samþykkisfrest hluthafa Stork N.V. til að taka yfirtökutilboði þess í allt hlutafé Stork N.V. til kl. 15.00 þann 18. september 2007 að því er segir í tilkynningu.

LME eignarhaldsfélag ehf. hefur tryggt sér yfir 43% hlutafjár í Stork og lýst því yfir að félagið muni ekki samþykkja fyrirliggjandi yfirtökutilboð. Framlengingin á samþykkisfrestinum er ákveðin á grundvelli samskipta London Acquisition við LME og Stork á síðustu dögum varðandi tilboðið og mögulegar leiðir til úrlausnar. Aðilarnir telja viðeigandi að halda áfram formlegum viðræðum.

Engin trygging er fyrir því að niðurstaða náist í viðræðum aðila, en aðilar eru sammála um að rétt sé að halda viðræðum áfram með að markmiði að ná niðurstöðu sem sé ásættanleg fyrir alla hagsmunaaðila.
Marel Food Systems á 20% hlut í LME eignarhaldsfélagi ehf., aðrir hluthafar í LME eru Landsbanki Íslands hf. og Eyrir Invest ehf.