Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur falið þeim Bjarna Snæbirni Jónssyni stjórnunarráðgjafa og doktor Ólafi Oddgeirssyni dýralækni, framkvæmdastjóra ráðgjafafyrirtækisins Food Control Consultants Ltd í Skotlandi að fara yfir og gera úttekt á ýmsum þáttum er lúta að rekstri og starfsumhverfi Matvælastofnunar.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Sérfræðingarnir munu fara yfir verkferla Matvælastofnunar hvað varðar eftirlit með lögum um dýravelferð og matvælaeftirlit og greina starfsaðferðir og bera saman við það sem almennt gerist hjá sambærilegum stofnunum í Evrópu. Þá munu sérfræðingar ráðuneytisins fara yfir þau lög sem gilda um starfsemi stofnunarinnar, beitingu þeirra og greina hvort skortur á lagaúrræðum hamli því að stofnunin geti veitt almenningi og opinberum stofnunum upplýsingar úr eftirlitsskýrslum. Kristín Benediktsdóttir dósent við Háskóla Íslands mun verða ráðuneytinu til aðstoðar hvað varðar lagafyrirmæli er lúta að birtingum upplýsinga.

Þá verði gerð athugun á rekstri, skipulagi og stjórnun og hvernig ráðuneytið sinnir almennum eftirlitsskyldum sínum með starfsemi Matvælastofnunar. Loks er óskað eftir ábendingum um það sem betur má fara varðandi framangreinda þætti, tillögum um breytingar á lögum og öðru því sem telja má að geti eflt framkvæmd með lögum um dýravelferð og matvælaeftirlit.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður framangreindra athugana liggi fyrir í lok febrúar. Í ráðuneytinu er unnið að endurskoðun laga um Matvælastofnun og verður afraksturinn m.a. nýttur við þá lagasmíð.