Heildsalan Core ehf. hagnaðist um 149 milljónir króna í fyrra samanborið við 23 milljónir árið á undan. Á sama tímabili jókst velta félagsins úr 440 milljónum í 1.144 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Core ehf. er í eigu hjónanna Ársæls Þórs Bjarnasonar og Kamillu Sveinsdóttur. Fyrirtækið, sem flytur inn ýmsar heilsuvörur, var  stofnað árið 1999 og fagnar því 20 ára afmæli á næsta ári. Ársæll segir alltaf ánægjulegt þegar reksturinn gangi vel.

„Fyrir utan síðustu tvö ár þá hefur uppbyggingin hjá okkur verið hæg,“ segir hann. „Svona heilt yfir, þegar maður lítur aftur, þá hefur gengið á ýmsu. Við höfum stundum farið í gegnum öldudali en samt alltaf náð að halda okkar striki. Okkur hefur yfirleitt gengið vel að koma okkar vörum í verslanir og raun sífellt betur eftir því sem árin hafa liðið. Það helgast af því að þær vörur sem við höfum flutt inn hafa oftast selst vel en það er samt alls ekki sjálfgefið að svo sé.“

Vinsældirnar komu á óvart

Ársæll segir ljóst að vinsældir Nocco undanfarið hafi haft mikið að segja um afkomu Core. Nocco er sykur- og kolvetnislaus koffíndrykur, sem inniheldur BCAA amínósýrur. Einnig er hægt að fá Nocco án koffeins.

„Við erum samt að flytja inn fjölda annarra vara sem hafa notið vinsælda. Við byrjuðum á að flytja inn vörur undir merkjum Natures Best, sem heitir QNT í dag. Þá erum við einnig að flytja inn Froosh, sem hefur oft á tíðum hefur verið mest seldi djúsinn á Íslandi. Einnig erum við með Barebells, prótein-súkkulaðistykki, sem hafa verið gríðarlega vinsæl, sem og heilsusnakkið PopCorners. Við höfum oft náð flugi með ýmsum vörum en þó aldrei eins og núna með Nocco.

Þó að ég hafi fyrirfram talið að Nocco væri spennandi vara inn á markaðinn þá viðurkenni ég alveg að þessar gríðarmiklu vinsældir hafa komið mér á óvart. Vinsældirnar endurspegla samt að mínu mati breytt neyslumynstur fólks. Það er ekki langt síðan fólk byrjaði að drekka kaffi, jafnvel á táningsaldri, og notaði oft strásykur til að bæta bragðið en svo er ekki í dag. Þessir koffeindrykkir, sem eru á markaðnum núna, hafa að mörgu leyti komið í staðinn fyrir kaffið. Þetta er nýi kaffidrykkurinn.“

Að sögn Ársæls er hann alltaf að líta í kringum sig eftir nýjum vörum.

„Við höfum verið mjög heppin að því leyti að bent hefur verið á okkur og síðan erum við sjálf alltaf að leita að nýjum og spennandi vörum. Á allra næstu mánuðum munum við kynna ýmsar nýjar vörur, sem eiga það allt sammerkt að flokkast sem heilsuvörur enda höfum við sérhæft okkur í þeim.“

Um síðustu áramót voru eignir Core ehf. metnar á 396 milljónir samanborið við 109 milljónir árið á undan. Um áramótin síðustu nam eigið fé 150 milljónum og eiginfjárhlutfallið var 38%. Hjá Core starfa 15 manns í dag.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um lánveitingu ríkisins til Íslandspósts.
  • Viðtal við sölustjóra hlutabréfa- og afleiðumarkaða hjá Nasdaq Nordic.
  • Úttekt á stöðu ferðaþjónustunnar.
  • Viðtal við stofnanda og eiganda Creative Artist Iceland.
  • Umfjöllun um leikjafyrirtækið Solid Clouds.
  • Þemasíða um bíla.
  • Óðinn skrifar um stöðu sérfræðilækna hér á landi.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um starfsmannamál Orkuveitu Reykjavíkur.