Skúli Mogesen forstjóri Wow Air segir samkeppnisaðila sinn norska félagið Norwegian tæplega geta kallað sig lággjaldafélag lengur.  Þetta kemur fram í viðtali viðskiptavefsins Business Insider við Skúla, en þar segir Skúli ennfremur að vandi margra lággjaldaflugfélaga stafi af því að félögin fylgi ekki lengur þeirri stefnu sem einkennt hafi slík félögin til þessa.

Sér í lagi eigi þetta við um Norwegian sem reki nú margar ólíkar flugvélar, selji sæti í sérstöku fyrsta farrými, bjóði upp á ókeypis Wi-Fi þjónustu og fleiri afþreyingarmöguleika. Að mati Skúla á því Norwegian fleira sameiginlegt með venjulegum flugfélögum en lággjaldafélögum.

Skúli segir taprekstur Norwegian stafa af álíka ástæðum og Wow hafi glímt við að undanförnu. „Lykilatrriði í velheppnuðum rekstri lággjaldaflugfélaga er að hafa einfaldleika í samsetningu flugvélaflotans í fyrirrúmi. Reksturinn flækist mjög hratt við það að gera út margar ólíkar flugvélar,“ segir Skúli sem bætir við að þetta sé helsta ástæðan fyrir erfiðum rekstri Wow að undanförnu og að svo virðist sem Norwegian hafi fallið í sömu gryfju.