Skjáspegill er ný lausn sem þjónustuver Íslandsbanka hefur tekið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á í samstarfi við sprotafyrirtækið CrankWheel.

Ráðgjafar bankans geta nú deilt upplýsingum á tölvuskjá heima hjá fólki með viðskiptavinum á sama tíma og þeir eru að aðstoða þá í gegnum síma.

Auðveldar deilingu upplýsinga

„Þetta er ætlað til að auðvelda aðilum sem eru að þjónusta viðskiptavini í gegnum síma, að deila upplýsingum og veita ráðgjöf,“ segir Már Másson, forstöðumaður dreifileiða og nýsköpunar hjá Íslandsbanka í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta þýðir að starfsmaður í þjónustuveri getur til dæmis farið í gegnum lánakosti húsnæðislána, innlánakosti, sparnaðarleiðir og annað, og boðið viðskiptavinum að sjá skjá þjónustufulltrúans. Þannig getur hann farið yfir ólíkar þjónustuleiðir með viðskiptavininum á auðveldan hátt. Fyllsta öryggis er gætt og einskorðast skjádeilingin við vafra þjónustufulltrúans en ekki önnur kerfi.“

Í fréttatilkynningu Íslandsbanka um málið kemur fram að öll samskipti í gegnum Skjáspegil séu dulkóðuð og að lausnin uppfylli strangar öryggiskröfur Íslandsbanka.

Hægt að nota í hvaða vafra sem er

Ekki þarf að hlaða niður sérstöku forriti til að nýta skjáspegilinn, og er hægt að nota hann í öllum tækjum óháð tegund og stýrikerfum, því hann virkar í hvaða vafra sem er.

„Viðskiptavinur sem óskar eftir því að fara yfir málin með þessum hætti fær þá bara sendan tengil, annað hvort í sms eða tölvupósti, sem opnar skjáspegilinn, svo viðskiptavinurinn þarf ekki að setja neitt upp hjá sér,“ segir Már, sem segir að viðskiptavinurinn deili ekki með bankanum upplýsingum heldur öfugt.

„Það er til dæmis sérstakt við þetta að þjónustufulltrúinn getur séð hvort einhver töf sé í móttöku viðskiptavinarins á því sem fram kemur á skjánum vegna lélegs netsambands og getur hann því hagað samtalinu með því að taka mið af því hvar viðskiptavinurinn er staddur í ferlinu.“