Mikill munur er á því milli landa hversu há framfærslulán íslenskra námsmanna erlendis eru miðað við metna framfærsluþörf þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námsmenn í Póllandi fá námslán upp á rúmlega tvöfalda framfærsluþörf á meðan námsmenn í Svíþjóð fá framfærslulán sem eru 1% umfram framfærsluþörf.

Þá eru dæmi þess að framfærsla íslenskra námsmanna sé öllu hærri en nettólaun heimamanna. Íslenskir námsmenn í Ungverjalandi fá jafnvirði 1.147 evra í framfærslulán frá LÍN á meðan meðallaun Ungverja eftir skatt eru tæpar 560 evrur í mánuði, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Lánasjóðurinn hefur verið gagnrýndur á undanförnum dögum eftir að framfærslulán til Íslendinga í námi erlendis voru lækkuð um allt að 20% milli ára.

Ósamræmi milli láns og þarfar

„Markmið með framfærslulánum hjá LÍN er að þau nægi fyrir framfærslu námsmanna í viðkomandi landi á meðan námi stendur,“ segir í tilkynningu LÍN. Við vinnslu úthlutunarreglna fyrir skólaárið 2014-2015 hafi komið í ljós að framfærslugrunnur námsmanna erlendis gæfi ekki rétta mynd af raunverulegri framfærsluþörf. Því hafi verið boðuð endurskoðun strax í úthlutunarreglum þess skólaárs.

Niðurstöður skýrslu Analytica hafi sýnt fram á að að töluvert ósamræmi væri milli raunverulegrar framfærsluþarfar og framfærsluláns LÍN í mörgum löndum. Mest hafi lánin numið 214% af framfærsluþörf, eða rúmlega tvöfalt meira en efni stóðu til og því væri ljóst að lagfæringar væri þörf, m.a. til að koma í veg fyrir skuldsetningu nemenda umfram þörf.

Einnig séu dæmi um að framfærslulán hafi verið lægri en framfærsluþörf og í þeim tilvikum hafi framfærslan verið hækkuð í einu skrefi.

Gætt að hagsmunum skattgreiðenda

„Stærsta skýringin á þessari skekkju er frá árinu 2009-2010 þegar framfærslugrunnurinn var hækkaður um 20%, bæði hjá námsmönnum innlendis og erlendis, með vísan til hækkunar á verðlagi hér innanlands. Þær verðlagsbreytingar hafa ekki áhrif með sama hætti á framfærslugrunn erlendis þar sem sjóðurinn lánar í erlendri mynt.

Því leiddu þær breytingar til þess að lán samkvæmt framfærslugrunni erlendis hækkaði um 20% umfram þörf, eða allt að 500 milljónir króna á ári (nú samtals um 3.000 milljónir). Hafa ber í huga að almennt innheimtist aðeins helmingur námsláns og telst hinn helmingurinn styrkur,“ segir í tilkynningu LÍN.

„Í þeim tilvikum þar sem framfærslugrunnur LÍN var of lágur, miðað við framfærsluþörf, var framfærslan hækkuð í einu skrefi líkt og áður segir, en þar sem lækka þarf framfærsluna verður það gert í þremur áföngum. Síðasti áfanginn í þeirri lagfæringu verður fyrir skólaárið  2017-2018.

Þessar breytingar eru gerðar með það að markmiði að sjóðurinn láni námsmönnum erlendis þannig að framfærslulánin dugi til framfærslu þeirra. Jafnframt er miðað við það að gætt sé að hagsmunum íslenskra skattborgara í starfsemi LÍN. Ein­göngu með því að nýta vel þá fjármuni sem skattborgarar leggja LÍN til getur sjóðurinn haldið áfram að standa undir markmiði sínu um að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til efnahags,“ segir í tilkynningunni.