Katrín Jakobsdóttir formaður VG vill leggja áherslu á kjaramál nú þegar fjölmargir kjarasamningar eru lausir, en einnig önnur stór mál og nefnir hún þar heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál. Jafnfamt segir hún að að ekki sé hægt að leysa úr öllum heimsins ágreiningsmálum eins og staðan sé nú í íslensku samfélagi.

Þetta sagði Katrín í kjölfar þess að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur falið henni formlegt stjórnarmyndunarumboð eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá , í kjölfar óformlegra viðræðna hennar við forystumenn Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Pírata.

„Ég legg á það mikla áherslu á að þessi ríkisstjórn setji fram skýra stefnu í því hvernig hún vilji ná sátt um kjaramálin,“ segir Katrín um eitt mikilvægasta málefnið sem komandi ríkisstjórn þyrfti að glíma við, enda eru fjölmargir kjarasamningar nú lausir.

„Ég legg áherslu á að taka á stóru línunum, ráðast í uppbyggingu í mennta-, heilbrigðis- og samgöngumálum, vinnumarkaðurinn og svo jafnréttis og umhverfismál.“ Segist hún telja að í stöðunni eins og hún er nú í íslensku samfélagi átti sig allir á að allir muni þurfa að gefa eitthvað eftir.

Segir samtöl forystumanna uppbyggilegri nú en fyrir ári

„Ég held að nú sé ekki tími í íslensku samfélagi að leysa úr öllum heimsins ágreiningsmál,“ segir Katrín aðspurð út í lausnir á peningastefnunni, afstöðunni til aðildar að ESB og fleiri stór mál, og vill hún ná breiðari samstöðu á þingi um mál.

„Ég legg mjög mikla áherslu á, eins og ég sagði fyrir ekki mjög mörgum dögum, að ríkisstjórnin leggi sig fram um að ná sátt um mál.“ Katrín segir að formlegar viðræður milli flokkanna hefjist á morgun

„Við munum leggja okkur fram um að vinna hratt, og línur ættu að skýrast fljótlega hvort þetta gangi saman,“ segir Katrín sem er samt ekki bjartsýn á að þing geti tekið til starfa í næstu viku. „Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið.“ Þó segist hún vera bjartsýnni nú en fyrir ári þegar flokkarnir reyndu að ná saman. „Mér finnst öll samtölin nú vera uppbyggilegri en fyrir ári.“