Valdatíð Robert Mugabe, fyrrverandi grunnskólakennarans, síðan stríðsherrans og byltingarleiðtogans, forsætisráðherra Zimbabwe frá því árið 1980 og síðar forseti, er lokið, en hann er sagður hafa sagt af sér samkvæmt bréfi sem forseti þingsins í landinu las upp.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var bréfið lesið upp stuttu áður en ræða átti vantrauststillögu gegn honum í þinginu en búist var við því að þingmenn stjórnarflokksins myndi samþykkja vantraustið einróma.

Varaforsetinn sem rekinn var fyrir um tveimur vikum, Emmersson Mnangagwa, sem þekktur er fyrir hrottalegar aðfarir sínar í fjöldamorðum á minnihlutahópum og stjórnarandstæðingum í landinu meðan hann var yfirmaður öryggissveita undir stjórn Mugabe, hefur tekið við.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku tók her landsins Mugabe í stofufangelsi í síðustu viku, þó fullyrt væri að ekki væri um valdarán að ræða. Hefur herinn þó jafnframt leyft mótmælendum að krefjast afsagnar Mugabe, enda sagði herinn í yfirlýsingu sinni að hann væri að verja byltinguna gegn gagnbyltingaröflum að því er WSJ segir frá.

Sagðist ætla að sitja fram að landsþingi stjórnarflokksins

Forsetinn sagði þvert á það sem hafði verið lagt að honum í ávarpi til þjóðarinnar á sunnudag að hann hyggðist sitja sem fastast að minnsta kosti þangað til landsþing ZANU-PF, stjórnarflokksins í landinu yrði haldið.

Stjórnarflokkurinn rak hinn 93 ára gamla Mugabe sem leiðtoga flokksins fyrr sama dag líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , og var Emmerson Mnangagwa, fyrrverandi varaforseti landsins, sem Mugabe hafði rekið úr embætti fyrir um tveimur vikum, skipaður í hans stað.

Mnangagwa fékk hins vegar veður að því að handtaka biði sín, svo hann flúði land, en ætlun Mugabe virðist hafa verið að tryggja að kona sín, Grace Mugabe, gæti tekið við að sér fráföllnum, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun Wall Street Journal .