Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kallar eftir því að stjórnendur Seðlabankans verði leystir frá störfum vegna aðfarar bankans gegn Samherja. „Við viljum að sjálfsögðu að þeir sem bera ábyrgð á því að þetta hafi getað gengið svona lengi og hvernig búnar hafa verið til ásakanir gegn okkur verði að sæta ábyrgð. Það á að sjálfsögðu að fjarlægja Má Guðmundsson [seðlabankastjóra] og Sigríði Logadóttur [yfirlögfræðing Seðlabankans] úr bankanum sem dæmi,“ segir Þorsteinn. Í síðustu viku komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Seðlabankanum hefði verið óheimilt að sekta Samherja vegna meintra brota á gjaldeyrislögum þar sem rannsókn málsins hafði áður verið lögð niður.

„Það verður ekki hjá því komist að kæra Má Guðmundsson til lögreglu vegna rangra sakargifta,“ segir Þorsteinn Már. „Hvað við kærum marga fer að sjálfsögðu eftir því hvernig þeir sem bera ábyrgð á bankanum ætla að haga sér. Við hjá Samherja erum ekki langrækin og viljum fá að horfa til framtíðar og einbeita okkur að því sem við erum best í,“ segir Þorsteinn Már.

Sex ára saga Samherjamálsins

  • 27. mars 2012

Sérstakur saksóknari og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans framkvæma húsleit á skrifstofum Samherja á vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum. Samherjamönnum hefur frá upphafi sárnað að myndatökumenn frá RÚV hafi verið mættir við húsakynni Samherja þegar húsleitin hófst og að Seðlabankinn hafi sent frá sér fréttatilkynningu á íslensku og ensku um húsleitina skömmu eftir að hún hófst.

  • 10. apríl 2013

Seðlabankinn kærir Samherja til sérstaks saksóknara vegna meintra brota á gjaldeyrislögum.

  • 23. ágúst 2013

Sérstakur saksóknari vísar málinu aftur til Seðlabankans þar sem ekki var heimild í lögum til að láta fyrirtæki bera refsiábyrgð fyrir brot á gjaldeyrislögum. Seðlabankinn sagði í yfirlýsingu á þriðjudaginn að það hefði fyrst komið í ljós í þessu máli að slíkt ákvæði væri ekki í lögum og síðan þá hefði lögunum verið breytt. Samherji bendir á að Seðlabankinn hafi sjálfur átt þátt í allri lagasetningu um gjaldeyrismál frá árinu 2008.

  • 9. september 2013

Seðlabankinn kærir Þorstein Má og þrjá aðra stjórnendur Samherja persónulega til sérstaks saksóknara vegna sömu ætluðu brota.

  • 4. september 2015

Sérstakur saksóknari fellir málið gegn fjórmenningunum niður sem sakamál eftir tveggja ára rannsókn og benti Seðlabankanum á að undirskrift ráðherra hefði vantað við setningu reglna um gjaldeyrismál í desember 2008. Seðlabankinn segir að það hafi fyrst komið í ljós eftir að málið var kært í annað sinn.

  • 6. nóvember 2015

Greint frá því að skattrannsóknarstjóri hefði ekki talið ástæðu til að aðhafast eftir að hluta málsins hafi verið vísað til embættisins.

  • 1. september 2016

Seðlabankinn sektar Samherja um 15 milljónir króna vegna meintra brota eftir að hafa áður boðið Samherja að ljúka málinu með sátt og 8,5 milljóna króna sektargreiðslu, sem Samherji hafnaði.

  • 24. apríl 2017

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja þar sem málið hafi áður verið látið niður falla.

  • 8. nóvember 2018

Hæstiréttur Íslands staðfestir dóm Héraðsdóms um að bankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja.

  • 12. nóvember 2018

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra óskað eftir greinargerð frá bankaráði Seðlabankans um málið eigi síðar en 7. desember.