Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, ritaði grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallaði um mikilvægi þess að auka gjalderyistekjur umtalsvert sem og að skapa meiri fjölbreytileika í öflun þeirra.

Segir Ingólfur að margt hafi áunnist í efnahagsmálum landsins á síðustu árum og nefnir hann í því samhengi að hagkerfið sé í jafnvægi, góða erlenda skuldastöðu og mikinn kaupmátt. Þó segir hann vera mikinn galla þessarar uppsveiflu sem verið hefur frá 2010 að hana skorti fjölbreytileika og hún byggi að mestu leyti á auknum gjaldeyristekjum frá ferðamönnum.

Hann nefnir jafnframt að samkeppnishæfni útflutingsgreinanna hafi versnað talsvert í uppsveiflunni.

„Laun í framleiðsluiðnaði hafa hækkað um 140% frá fyrsta ársfjórðungi 2010 mælt í evrum en til samanburðar hækkuðu laun í þeim hluta iðnaðarins um 20% í ESB-ríkjunum á sama tíma. Hækkuðu laun hér á landi mælt í evrum langt umfram það sem gerst hefur í nokkru öðru iðnvæddu ríki á tímabilinu. Laun í greininni eru nú með því hæsta sem þekkist í samanburði við önnur lönd og samkeppnishæfni greinarinnar því skert á alþjóðlegum vettvangi. Kemur þetta verst niður á þeirri gjaldeyrisskapandi starfsemi þar sem vægi launakostnaðar er hátt í heildarkostnaði. Við þetta bætist síðan hár innlendur fjármagnskostnaður og óhagstætt skattaumhverfi. Hefur þetta komið niður á samkeppnisstöðu fyrirtækja í greininni gagnvart erlendum keppinautum, rýrt markaðshlutdeild og gjaldeyrissköpun þeirra. Svipaða sögu má segja af fyrirtækjum í öðrum greinum sem eru í erlendri samkeppni,“ segir í greininni.

Í lokin segir hann það vera mikið áhyggjuefni að lítill vöxtur hafi verið í gjaldeyrisskapandi greinum hér á landi fyrir utan ferðaþjónustuna og til þess að bæta efnahagsleg lífsgæði hér á landi þurfi að auka gjaldeyristekjur umtalsvert og skapa meiri fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun.

Greinina í heild sinni má lesa hér .