Nú á dögunum stóð Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fyrir ferð til Stokkhólms. Ferðin var hluti af samstarfsverkefni sem sjóðurinn hefur tekið þátt í með Nasdaq á Íslandi, Lögmannsstofunni Logos, KPMG og Íslandsbanka. Í ferðina fóru, ásamt fulltrúum fyrrnefndra aðila, fulltrúar þrettán íslenskra sprotafyrirtækja sem eiga það sameiginlegt að vera að íhuga skráningu á markað.

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir að markmið verkefnisins hafi verið að opna fleiri tækifæri fyrir sprotafyrirtæki til þess að skrá sig á markað.

„Þeir sem eru að fjárfesta í sprotafyrirtækjum hér á landi hafa kynnst því að þetta er nokkuð grunnur markaður og það er almennt séð erfitt að koma þessum fyrirtækjum í verð og fjármagna þau áfram til vaxtar. Ýmsum fyrirtækjum var boðið að taka þátt í verkefninu og þau félög sem tóku þátt töldu fyrirtæki sín vera þannig uppbyggð að skráning kæmi til greina hjá þeim á næstu tveimur til þremur árum. Við höfum hist mánaðarlega undir stjórn Nasdaq á Íslandi. Stuðningsaðilarnir hafa svo skipt á milli sín viðfangsefnum og hver og einn aðili lagt inn sína sérþekkingu."

Stokkhólmur „Mekka" kauphalla á Norðurlöndunum

Að sögn Friðriks var megintilgangur ferðarinnar að opna augu þátttakenda fyrir þeim tækifærum sem felast í skráningu á markað. „Stokkhólmur er „Mekka" Norðurlandanna hvað varðar kauphallir. Þar eru almennar kauphallir og svo eru einnig aðgengilegir sérhæfðari markaðir eins og First North."

Í ferðinni var meðal annars farið í heimsókn í frumkvöðlasetrið Epicenter, Sendiráð Íslands í Stokkhólmi og kauphöll Nasdaq í Stokkhólmi - sem var burðarheimsóknin í ferðinni. Þar var starfsemi kauphallarinnar kynnt og meðal annars sagt frá því að meira en 600 fyrirtæki væru skráð á markað hennar. Þar á meðal eru 292 fyrirtæki skráð á First North markaðinn, en alls eru 348 fyrirtæki skráð á First North markaði kauphalla Nasdaq á Norðurlöndunum. Loks kom fram að 83 fyrirtæki voru nýskráð hjá kauphöllinni í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .