Fyrir opnun hlutabréfamarkaða í dag áttu sér stað utanþingsviðskipti með hlutabréf í VÍS að nafnvirði um 85 milljónir króna, eða um 3,67% af útgefnu hlutafé. Viðskiptin, sem samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins áttu sér stað fyrir milligöngu Virðingar, voru á 8,2 krónum á hlut, eða tólf aurum yfir lokagengi eftir lokun markaða í gær. Kaupverðið var því rétt tæpar 700 milljónir króna.

Ekki er vitað hver kaupandinn er. Þegar þetta er ritað nemur velta með hlutabréf í VÍS 743 milljónum króna og hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 2,72% frá opnun markaða.

Aðalfundur VÍS fór fram miðvikudaginn 16. mars síðastliðinn. Tveir karlkyns einstaklingar drógu framboð sín tilbaka við upphaf fundarins og var þar með einungis einn karlkyns einstaklingur í framboði en fjórir kvenkyns einstaklingar. Var því ekki hægt að mynda stjórn sem væri í samræmi við ákvæði laga um kynjahlutföll í stjórnum.

Framhaldsaðalfundur félagsins fer fram þann 6. apríl næstkomandi og verður ný stjórn kjörin á þeim fundi.