Um 62,8% landsmanna þekkja ekki stjórnmálahreyfinguna Viðreisn samkvæmt nýrri könnun sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið af Gallup. Um 4,2% aðspurðra sögðu það koma sterklega til greina að kjósa hreyfinguna og önnur 6,9% að það kæmi kannski til greina. Hins vegar segja 26% að það komi ekki til greina að kjósa hreyfinguna.

Þegar svörin eru borin saman við það hvaða flokk fólk styður almennt kemur í ljós að staða Viðreisnar er sterkust meðal fylgismanna Samfylkingarinnar. Þar segja sex prósent að það komi sterklega til greina að kjósa Viðreisn og önnur fjórtán prósent að það komi kannski til greina. Stuðningur við Viðreisn mælist vart hjá fylgismönnum Framsóknar og Vinstri-grænna, en þrjú prósent sjálfstæðismanna segja það koma sterklega til greina að kjósa hreyfinguna og önnur sex prósent að það komi kannski til greina.

Undirbúningur að stofnun Viðreisnar hefur staðið lengi yfir, en í júní í fyrra var haldinn opinn hugmyndafundur. Aðstandendur Viðreisnar eru m.a. þeir Benedikt Jóhannesson, forstjóri Talnakönnunar, Helgi Magnússon fjárfestir, og Jórunn Frímannsdóttir hjúkrunarfræðingur. Á fundinn í fyrra mættu meðal annars þeir Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst, Benedikt Geirsson varaborgarfulltrúi, Einar Benediktsson, fyrrverandi sendihetrra, Sveinn Andri Sveinsson lögmaður og Ólafur Arnarson rithöfundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • 14.000 miðar hafa verið seldir í forsölu á nýjustu Star Wars myndina.
  • Skiptum á VBS fjárfestingabanka lýkur í vor.
  • Framtíðin hefur veitt hundruð námslána.
  • Mikið misræmi er á milli þess hvernig lögheimili þingmanna og landsmanna dreifast.
  • Íslensk sænska fyrirtækið Sidekick Health framleiðir heilsueflandi smáforrit.
  • Enn ríkir óvissa um framtíð Íbúðalánasjóðs.
  • Elín Jónsdóttir framkvæmdastjóri VÍB er í viðtali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Illuga Gunnarsson.
  • Óðinn fjallar um loftslagsmál.