Eyrir Invest hefur selt 17% eignarhlut sinn í hollenska tæknifyrirtækinu Fokker. Fyrirtækið er líklega þekktast hér á landi fyrir flugvélar sínar, en í dag framleiðir fyrirtækið ýmiss konar búnað fyrir flugiðnaðinn. Kaupandi Fokker er breska iðnaðarsamsteypan GKN og söluverðið er 706 milljónir evra eða sem jafngildir 104 milljörðum evra.

Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri eigna hjá Eyri Invest, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þar á bæ hafi ávöxtun fjárfestingarinnar ekki verið metin. “Þetta er fjárfesting sem á sér svolítið flókna sögu, og var partur af stærri fjárfestingu í ársbyrjun 2008 sem er verið að leysa upp í áföngum," segir Örn. Eyrir eignaðist hlutinn í Fokker á sínum tíma í tengslum við yfirtöku Marel á Stork, sem þá samanstóð af þremur einingum. Stork Food Systems rann inn í Marel en 17% hlutir í Fokker og Stork Technical Services urðu hluti af eignasafni Eyris.

GKN átti frumkvæðið

Örn segir að Stork Technical Services sé ekki í söluferli. „En það er aftur á móti ekki heldur eign sem við gerum ráð fyrir að eiga til langframa. Hún verður seld fyrr en síðar.“

„Það var GKN sem hringdi fyrsta símtalið ef svo má segja," segir Örn spurður um hver átti frumkvæðið á viðskiptunum. "Það hefur hins vegar verið vitað í þessum heimi að Fokker væri til sölu á einhverjum tímapunkti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .