Undirbúningsframkvæmdir munu hefjast á næsta ári í Djúpafirði fyrir vegalagningu í gegnum Teigsskóg, víðfemasta óspillta landnmámsskóg Vestfjarða, ef Vegagerðinni tekst að klára umhverfisskýrslu um vegalagninguna. Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu

Nú er verið að bíða eftir grænu ljósi frá Skipulagsstofnun við að kynna endurskoðaða frummatsskýrslu um vegalagninguna um Gufudalssveit. Lengi hafa verið uppi deilur um vegalagninguna í gegnum skóginn vegna umhverfisáhrifa á óspilltri strandlengjunni.

Víðfemasti landnámsskógur Vestfjarða

Nær umhverfismatið um veginn frá Skálanesi í Bjarkarlundi en framkvæmdin felur í sér þveranir Gufufjarðar og Djúpafjarðar sem ganga út frá Þorskafirði og mun leiðin liggja eftir norðurströnd hans.

Þar liggur Teigsskógur á mjórri landræmu milli fjalls og fjöru og liggur þar einn víðfemasti landnámsskógur Vestfjarða.

2,7 milljarðar til vegaframkvæmdanna

Gert er ráð fyrir fjárveitingum til vegagerðarinnar í ósamþykktri vegaáætlun. Í grein Einars Kristins Guðfinnssonar alþingismanns og forseta Alþingis frá mars síðastliðnum segir að gert sé ráð fyrir 2,7 milljörðum króna til verkefnisins til ársins 2018.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um hugmyndir um þverun Þorskafjarðar sjálfs við mynni fjarðarins, svokölluð leið A, sem myndi hlífa Teigsskógi, og nýta núverandi vegastæði, auk þess að færa umferðina í gegnum byggðina á Reykhólum.

Jafnframt hafa verið uppi hugmyndir að nýta vegagerðina til að byggja upp sjávarfallavirkjun í leiðinni sem myndi ef best lætur geta annað allri orkuþörf Vestfjarða.