*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 7. október 2018 18:01

Trump er ekki endastöðin í þróuninni

Matt B. Kibbe, þekktur álitsgjafi í bandarískum fjölmiðlum sem hefur unnið fyrir Rand Paul, var nýlega staddur á Íslandi.

Höskuldur Marselíusarson
Matthew B. Kibbe hélt fyrirlestur á samt konu sinni Terry á ráðstefnu ELS, sem eru samtök frjálshuga stúdenta, á Grand hótel í Reykjavík.

Bandaríski hagfræðingurinn, álitsgjafinn og teboðsskipuleggjandinn Matt Kibbe sem staddur var hér á landi á nýlegri ráðstefnu European Students for Liberty á Grandhótel hefur áhyggjur af vaxandi lýðskrumi í þjóðmálaumræðu.

Hann segir hana þó koma til af jákvæðum tæknibreytingum sem geti leitt af sér jákvæðari niðurstöðu þegar fram líða stundir. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um telur hann að Trump misskilji verslun og viðskiptahalla milli ríkja í grundvallaratriðum.

„Núna sjáum við þjóðernishyggju og sósíalisma vaxa, sem er mjög slæm þróun. Fólk sem hefur áhyggjur af störfum sínum vegna samkeppni frá ódýrari löndum, þá sérstaklega í framleiðsluiðnaði, er að kaupa hræðsluáróður um að ástandið sé einhverjum öðrum að kenna. Hvort sem það er Kína, Evrópusambandið eða hver svo sem það er, sem Trump elskar að geta kennt um. Hins vegar erum við einnig að sjá að þeim fjölgar sem skilja hvað er raunverulega að gerast, að hagkvæmni og sérhæfing er að aukast sem eykur heildarhaginn,“ segir Kibbe.

„Það er upp á okkur komið, við sem vinnum fyrir mið hægrisinnuð stjórnmálaöfl, að færa rök fyrir betri stefnu, í mínu tilviki innan Repúblikanaflokksins þar sem ég t.d. rak kosningastuðningshóp fyrir Rand Paul sem er eins konar frjálshyggjumaður. Það er nefnilega svo auðvelt að koma með lýðskrum, en það er erfiðara að útskýra hvað er á bak við þróunina. En það er algerlega nauðsynlegt að við áttum okkur á því hvernig við gerum það. Ein leið væri að segja sögur þeirra einstaklinga sem njóta ávaxtarins af fríverslun, að benda á mannlegu hliðina og að þetta snýst um samstarf en ekki baráttu.“

Eins og þekkt er þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að hann vilji heldur tvíhliða samninga milli tveggja ríkja um fríverslun heldur en fjölþjóðasamninga og deilir Kibbe þeirri skoðun með honum.

„En meinar hann það? Ég held að hann trúi ekki sjálfur á kosti tvíhliða fríverslunarsamninga þótt hann segi það stundum, þó ég vonist til þess að við komumst þangað á endanum. Ljóti sannleikurinn um stjórnmálin er að báðir flokkarnir í Bandaríkjunum, til hægri og vinstri, sjá tækifæri til lýðskrums vegna fríverslunar. Og þannig hefur ástandinu hnignað síðustu 15 til 20 árin,“ segir Kibbe og lýsir því hvernig tvíhliða samningar ættu að vera einfaldari að allri gerð.

„Við sjáum til dæmis eins og Evrópusambandið sem upphaflega var hugsað til þess að brjóta niður tollamúra á milli ríkja. En núna er það orðið að þessu risavaxna skrifstofubákni, sem nánast af eðlishvöt refsar sumum geirum atvinnulífsins og jafnvel menningu sumra svæða, vegna þess að ESB er ekki lausn sem hentar öllum. Fríverslun gerir það aftur á móti, en við viljum ekki þurfa að fara í smáatriði um vinnumarkaðsreglur, umhverfisstefnu, hugverkarétt og svo framvegis heldur viljum við hafa þetta einfalt og á breiðum grunni þar sem við leyfum fólki sjálft að taka ákvarðanir um þessi mál.“

Ekki endastöð í þróuninni

Kibbe er þó ekki jafn svartsýnn á þróunina í Bandaríkjunum og kannski ætla mætti. „Sú hugmynd að Trump væri ókjósanlegur reyndist fáránleg, og það reyndist demókrötum dýrkeypt að taka hann aldrei alvarlega og gera ráð fyrir því að Hillary myndi vinna. Sama söguskýring er núna í gangi, að Trump sé dæmdur til að verða ekki endurkjörinn, en ég held að það sé ekki rétt, þetta er mun flóknari en það,“ segir Kibbe og skýrir það með því að báðir flokkarnir séu að verða minni og öfgakenndari.

„Demókratarnir eru að verða framsæknari og sósíalískari, nú sjáum við yfirlýsta sósíalista vinna kosningar innan flokksins, á meðan hægrið er að verða þjóðernissinnaðra. En á sama tíma eru fleiri og fleiri Bandaríkjamenn að skrá sig utan flokka, því þeir geta ekki samsamað sig með öðru hvorum flokknum. Trump hefur nýtt sér þennan klofning og ég færi rök fyrir því að Obama hafi gert það sama á undan honum. En við erum að sjá þessa öfgahópa spretta fram bæði til hægri og vinstri og allt þar á milli vegna þess að umræðan er að opnast.

Þetta er líka að gerast í Evrópu, enda drifið áfram fyrst og fremst af tækninni, þar sem stóru fjölmiðlafyrirtækin geta ekki lengur stýrt umræðunni. Það að við erum að fá fleiri raddir inn í umræðuna skýrir auðvitað skrýtna hluti eins og sigur Donalds Trump, og í raun Bernie Sanders í Demókrataflokknum, sem hefði getað unnið ef ekki væri fyrir kosningareglur hjá þeim sem gera utangarðsmönnum erfiðara fyrir. Báðir deila þeir sömu stefnunni um aukna tollvernd. En ég er bjartsýnn á að Trump sé ekki endastöðin heldur að við erum á leið á einhvern stað, þar sem umræðan er opnari og það þarf ekki vera slæmur staður.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim