Á aðalfundi Landsbankans þann 17. apríl sl. vék ég sem formaður bankaráðs m.a. að anda og tilgangi laga um Bankasýslu ríkisins en hún fer með eignarhlut ríkissjóðs í bankanum. Ég benti á að með nýrri yfirstjórn Bankasýslunnar hafi orðið ljós meiningarmunur um valdsvið eigandans þegar kemur að mikilvæg­um ákvörðunum Landsbankans.

Í ræðunni var undirstrikað mikilvægi þess að samskipti Lands­ bankans og Bankasýslunnar séu góð, byggi á gagnkvæmu trausti og virðingu, faglegum heilindum og séu í samræmi við eigendastefnu ríkisins og viðurkenndar leiðbeiningar um stjórnarhætti.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 19. apríl sl. er haft eftir Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslunnar, að stofnunin fari að lögum í einu og öllu. Hvergi í ræðunni var þó nefnt að Bankasýslan færi ekki að lög­ um en áhyggjum lýst af því að hún hefði farið inn á valdsvið banka­ráðsins. Svo mátti auk þess skilja af viðbrögðum forstjórans að yfirferð bankaráðsformannsins hefði ver­ið svo almenn að það þyrfti ekki taka hana of alvarlega. Forstjórinn má þó vita að formaður bankaráðs Landsbankans tæpir varla á svona viðkvæmu máli nema það hvíli þungt á bankaráðinu og að það hafi næg dæmi máli sínu til stuðnings til að leggja fyrir yfirvöld.

Andi laganna

Ljóst er að lögin um Bankasýsluna og eigendastefna ríkisins hefðu þurft vandaðri undirbúning. Vissulega veita þau því rými til ólíkrar túlkunar en það virðist mat Banka­ sýslumanna að fulltrúar eigand­ans hafi ríkari rétt til upplýsinga frá Landsbankanum en almennt á við um hluthafa í fjármálafyrirtæki.

Hér er að mínu mati langt seilst eins og hætta er á að gerist á óvissutímum þegar kappsfullir aðilar ætla sér meiri völd en ráð var fyrir gert. Í athugasemdum með laga­ frumvarpinu kemur fram að eig­endastefna ríkisins sé mótuð með hliðsjón af skýrslu OECD og þeim ramma sem Norðmenn hafi sett bönkum í ríkiseigu og í áliti meiri­ hlutans segir m.a.

„…að það sé skýrt að Bankasýsl­unni er ekki ætlað að taka úr sambandi ábyrgð og valdsvið bankaráða og stjórna í fjármálafyrirtækjum... Þau verða rekin á viðskiptalegum forsendum á ábyrgð bankaráða, stjórna og stjórnenda eins og hver önnur félög…“

Í framsöguræðu formanns viðskiptanefndar Alþingis við 2. umræðu var svo sjónarmið um verkaskiptingu og valdsvið Bankasýslunnar ítrekað:

„Hér er, frú forseti, verið að ítreka það, jafnt í nefndaráliti meirihluta hv. Viðskiptanefndar sem og í drög­ um að eigendastefnu, að Bankasýsl­ unni er ekki ætlað að vera neitt yfirbankaráð eða neinn yfirfrakki á fjármálastofnanirnar… (skáletrun greinarhöfundar)“.

Í eigendastefnu ríkisins er marg­ ítrekað að ekki sé meiningin að víkja frá hefðbundnum leikreglum um stjórnkerfi hlutafélaga:

„Algert jafnræði skal vera milli rík­ isins og annarra hluthafa sem kunna að eiga í félagi við það hluti í fjármála­stofnunum. Ef ríkið á eignarhluti í fjármálastofnun í félagi við aðra eig­endur mun það ekki fá frekari upplýsingar en aðilar á markaði líkt og hlut­hafar í öðrum fyrirtækjum.“

Þá er miðað við það í eigendastefnunni að fjármálafyrirtæki sem ríkið á hlut í verði í dreifðri eignaraðild og uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til skráðra fyrirtækja í Kauphöll, þ.á m. um góða stjórnarhætti. Að mínu mati er áríðandi að fyrirtæki eins og Landsbankinn haldi þessu til streitu jafnvel þó ríkið sé um stundarsakir eini hluthafinn.

Þekking á góðum stjórnarháttum nægjanleg hjá Bankasýslunni?

Í 4. gr. b­liðar laga um Bankasýsluna er kveðið á um að hún skuli beina samskiptum við fjármálafyrirtæki að stjórnum þeirra. Þetta ákvæði hefur þó ekki hindr­ að forstjóra Bankasýslunnar í því að hafa beint samband við starfsmenn Landsbankans til að ræða mál sem eru á forræði bankaráðs og gera sig líklegan til að segja því fyrir verkum. Fleiri óheppileg dæmi má nefna í þessu sambandi.

Andmælum bankaráðs vegna þessa hefur verið mætt af fálæti. Ljóst er því að yfirstjórn Bankasýslunnar hefur tæplega þá þekkingu á góð­ um stjórnarháttum fyrirtækja sem áskilin er í 6. gr. laga um hana.

Eins og áður sagði virðist Banka­ sýslan ætla sér óvenju ríkan rétt til að véla um málefni Landsbankans og hún getur beitt bankaráðið þrýstingi – þótt ábyrgðin á rekstrinum sé alltaf á endanum bankaráðsins sem allt er tilnefnt af þessari sömu Bankasýslu. Þetta setur bankaráð Landsbankans í óvenju vandasama stöðu.

Eftirlitslausum aðila falin umsjá krúnudjásnsins

Um síðustu áramót var bókfært innra virði Landsbankans um 225 milljarðar króna og hlutur ríkis­ sjóðs um 220 milljarðar. Í ljósi þess er óhætt að fullyrða að eign ríkisins í Landsbankanum sé eitt af „krúnudjásnum ríkissjóðs.“

Starfsmönnum Bankasýslunnar, ólíkt bankaráðsmönnum og öðrum í yfirstjórn Landsbankans, er ekki gert að undirgangast hæfismat FME. Í því er lögð áhersla á ríka hlutlæga ábyrgð stjórnarmanna, eftirlits­ hlutverk þeirra og þá meginskyldu að gæta ætíð hagsmuna viðkomandi félags og jafnræðis hluthafanna. Einnig er fjallað ítarlega um hlutverk opinberra eftirlitsaðila eins og FME og þær aðgerðir sem eftirlitið getur gripið til gagnvart bankaráðs­ mönnum og félaginu sjálfu.

FME hefur ekki lögsögu í málefnum Bankasýslunnar og getur því ekki brugðist við kvörtunum vegna framgangs hennar. Hún heyrir und­ir fjármálaráðherra en ekki verður séð að ráðherra hafi nægjanlega sterk úrræði til að hlutast til um málefni Bankasýslunnar, þróist þau með öðrum hætti en skynsamlegt er talið útfrá hagsmunum ríkissjóðs. Bankasýslan gæti því einhverjum virst vera orðin „ríki í ríkinu“.

Í reynd hefur því algerlega eftir­litslausum aðila og starfsmönnum hans, sem gerðar eru minni kröfur til um trúnað og hæfi en stjórnenda í fjármálafyrirtækjum, verið falin umsjá 220 milljarða króna hlutar ríkissjóðs í Landsbankanum auk annarra smærri eigna.

Tækifæri til sparnaðar í ríkisrekstrinum

Bankasýslan hefur að mínu mati farið óvarlega í eigendahlutverki sínu und­ir það síðasta og ekki haldið á hagsmunum ríkissjóðs sem skyldi. Afli og ögrunum hefur verið beitt þegar beita hefði átt lipurð og mönnum hef­ur yfirsést valdmörk stofnunarinnar. Samkvæmt lögum um Bankasýslu ríkisins frá 11. ágúst 2009 á hún að starfa í fimm ár. Hér er því dæmi um starfsemi sem ríkissjóður getur að meinalausu skorið niður strax á næsta ári. Fram að því verður þó að tryggja að Bankasýslan valdi ekki frekari truflunum í Landsbankanum.

Grein Gunnars Helga birtist í Viðskiptablaðinu 24. apríl 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð.