Forsætisráðherra sagði næstum því að önnur kreppa væri yfirvofandi. Þegar betur er að gáð kom þó í ljós að hann var bara að tala um að sagan endurtaki sig. Núna hljómar allt krepputal eins og fjarstæðukenndar heimsendaspár. Hagvöxtur er sá mesti í Vesturheimi, verðbólga er minni en Seðlabankinn vill hafa hana og ferðamönnum fjölgar enn – þó (blessunarlega) hægar en undanfarin ár.

Fasteignir hafa aldrei verið dýrari þó svo að (blessunarlega) hafi dregið úr verðhækkunum undanfarna mánuði – verðhækkunum sem koma verst við ungt fólk í leit að fyrstu eign. Forsetaframbjóðandi nokkur skrifaði fyrir rúmum áratug bók. Í bókinni var fjallað um uppbyggingu stóriðju og hvernig haldið var á lofti að án hennar væri engin framtíð og ekkert fyrir fólkið að gera. Þegar bent var á að fólkið gæti gert „eitthvað annað“ var umsvifalaust spurt: „hvað?“ Við því var auðvitað ekkert svar.

Þegar ferðamannastraumurinn byrjaði í upphafi áratugarins var honum eðlilega fagnað eins og rigningunni eftir áralanga þurrkatíð. Fólkið gat loksins fengið eitthvað að gera. Gæðin dreifðust víð­ ar en þegar bankarnir þöndust út, því nú fékk millistéttin tækifæri til að leigja kjallarann ungum ferðalöngum eða láta loksins drauminn rætast um að gæda Þjóðverja um Ásbyrgi. Allt lék í lyndi.

Hægt og rólega varð straumurinn að flóði sem sýnir engin merki um að gefa eftir. Fólkinu hætti að standa á sama, enda orðið þreytt á að standa í röð á Bæjarins Beztu og að þrífa aukaherbergið fyrir næstu gesti. Þrátt fyrir að hafa á sínum tíma fengið náttúruöflin til liðs við okkur við landkynningu með eldi og brennisteini varð Ferðamannalandið Ísland að einhverju leyti til fyrir slysni. Ferðaþjónustan bjargaði þjóðinni vissulega upp úr mestu kreppu síðari ára og er orðin ómissandi stoð í hagkerfinu, stoð sem er vonandi hvergi á förum.

Nú er góðærið sem ferðamennirnir færðu okkur hins vegar orðið svo alltumlykjandi að lítil fyrirtæki eiga erfiðara með að spyrna sér upp á yfirborðið því allar vinnandi hendur eru (blessunarlega) önnum kafnar. Þegar svo er komið myndast sú öfugsnúna staða að lítil sprotafyrirtæki, sem þurfa frjóan jarðveg til að vaxa og dafna, staðna eða visna í skugga sjö prósents hagvaxtar og neikvæðs atvinnuleysis. Það er kannski augljósasta einkenni góðærisins þegar einhver spyr hvort „eitthvað annað“ hefði orðið til ef ekki hefði farið sem fór.