Samkvæmt KODIAK Excel var verðbólguálag til fimm ára 2,2% síðastliðinn mánudag (19. desember). Dagleg gildi frá árinu 2009 benda til að yfir helmingslíkur séu á að verðbólga víki ekki langt frá álaginu.

Ákvörðunartaka um verðtryggða eða óverðtryggða fjárfestingu og lántöku krefst mats á verðbólgu. Til dæmis má styðjast við verðbólguspá Seðlabanka Íslands sem nær til þriggja ára, eða fimm ára spá Hagstofu Íslands. Í tilfelli þriggja stærstu innlánsstofnananna geta verðtryggðir vextir verið festir til fimm ára í senn sem krefst verðbólgumats til jafn langs tíma.

Að auki kemur til greina svokallað verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Verkfræðingurinn Agnar Tómas Möller lýsti ágætlega álaginu í Viðskiptablaðinu í ágúst í fyrra sem mengi vænts meðaltals ársverðbólgu í framtíðinni og verðbólguáhættuálagi. Í heild sinni er það fundið sem mismunur óverðtryggðrar ávöxtunarkröfu og verðtryggðrar kröfu til sama tíma. Sá mælikvarði ætti að virðast nokkuð rökréttur þar sem fjárfestar ákvarða álagið með kaupum og sölu á skuldabréfunum og munu þurfa þola tap í því tilfelli sem þeir hafa rangt fyrir sér – ekki bara vanlíðan af því að spá rangt.

Hversu vel hefur markaðurinn séð fyrir verðbólgu? Mögulegt er að notast við fimm ára skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar (óverðtryggðu OMXI5YNI og verðtryggðu OMXI5YI) til að reikna álagið til fimm ára í senn frá ársbyrjun 2001. Samanburður við raunverðbólgu fæst með því að reikna meðalársverðbólgu til næstu fimm ára frá og með deginum sem álagið er fundið. Að auki er mögulegt að leiðrétta fyrir verðbólguáhættuálaginu (sjá mat Seðlabankans í rammagrein 1 Peningamála frá því í maí í fyrra).

Verðbólguálag og meðalverðbólga
Verðbólguálag og meðalverðbólga

Myndin sýnir að frá ársbyrjun 2009 út árið 2011 stóð markaðurinn sig betur að sjá fyrir 5 ára meðalverðbólgu en tímabilið 2001 til 2008. Í 64% tilfella féll verðbólga innan þeirra marka að vera 1% minni eða meiri en álagið spáði fyrir um. Til samanburðar var meðalverðbólga einungis í 17% tilfella innan 1% markanna árin 2001 til 2008.

Að auki er áhugavert að kanna hversu vel fimm ára álagið sér fyrir verðbólgu eitt ár fram í tímann. Á tímabilinu 2001 til 2008 var ársverðbólga í 48% tilfella innan 1% markanna. Árin 2009 til 2015 var verðbólga innan 1% markanna í 43% tilfella.

Í ljósi þess að íslenska krónan hefur styrkst verulega síðastliðið ár og að framundan er frekari losun fjármagnshafta má velta vöngum yfir hvort 64% líkur séu á að hún verði á bilinu 1,2 til 3,2% ef fimm ára álagið er notað sem spá fyrir meðalverðbólgu.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. desember. Hún er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.