Hljómsveitin IceGuys hefur vakið mikla athygli það sem af er ári enda sveitin skipuð mönnum sem hafa verið áberandi í þjóðlífinu um margra ára skeið. Sveitina skipa þeir Jón Jónsson, Friðrik Dór, Aron Can, Árni Páll Árnason (Herra Hnetusmjör) og Rúrik Gíslason. Hún hefur gefið út þrjú lög sem öll hafa ratað á vinsældarlista hér á landi.

Nýútgefnir þættir um sveitina virðast einnig njóta mikilla vinsælda. Í fréttatilkynningu frá Símanum er greint frá því að fyrsti þátturinn hafi slegið áhorfsmet í Sjónvarpi Símans yfir fjölda spilana fyrsta sólarhring frá útgáfu, met sem áður var í eigu þáttanna Venjulegt Fólk. Það met hafi þó ekki staðið lengi því viku seinna hafi þættirnir slegið eigið met, þegar annar þáttur seríunnar kom út. Þáttaröðin hafi því þegar skipað sér á stall meðal vinsælustu íslensku þáttaraða í Sjónvarpi Símans frá upphafi.

„Á bak við þættina er hið nýstofnaða framleiðslufyrirtæki Atlavík ásamt Sóla Hólm sem fer með handritaskrif. Að baki Atlavík standa þeir Hannes Halldórsson, Hannes Arason og Allan Sigurðsson, en þar starfar einnig Sandra Barilli sem kom að framkvæmdastjórn þáttanna ásamt því að leika umboðsmanninn skrautlega, Mollý,“ segir í tilkynningu Símans.