Þjálfarinn Indíana Nanna Jóhannsdóttir útskrifaðist með B.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 en fann undir lok námsins að hún hefði tapað gleðinni í því sem hún var að gera.

„Ég man að ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni og var stanslaust að líta á klukkuna til að athuga hvenær ég gæti komist á æfingu. Þarna var áhuginn á hreyfingu og heilsu orðinn mjög áþreifanlegur.“

Eftir mikla umhugsun ákvað Indíana svo að segja skilið við lögfræðina, finna sér aðra vinnu og taka einkaþjálfarann samhliða.

Tæplega tveimur árum síðar, þá einungis 25 ára gömul, tók hún stökkið og sagði upp í vinnunni sinni hjá heilsufyrirtækinu Icepharma þar sem hún starfaði sem vefstjóri.

Hún fór þá að setja allan sinn tíma og vinnu í þjálfun. Það hefur skilað sér því að í upphafi þessa árs opnaði hún fyrstu fjölskyldureknu æfingastöðina á Kársnesinu með eiginmanninum sínum, Finni Orra Margeirssyni.

Eiginmaður og meðeigandi Indíönu, Finnur Orri Margeirsson.
Eiginmaður og meðeigandi Indíönu, Finnur Orri Margeirsson.

Indíana titlar Finn Orra, eiginmann hennar, sem fjármálastjóra GoMove en þau hjónin reka stöðina saman. Samhliða rekstrinum er Finnur í fullri vinnu hjá Reitun og knattspyrnumaður hjá FH.

„Ég var svo glöð að Finnur vildi koma með mér í þetta. Það að hafa einhverja manneskju sem veit allt sem er í gangi, skilur allt og þú getur talað við um öll vandamál hjálpar mikið.“

Aðspurð út í það hvernig sé að vinna með makanum sínum segir Indíana það gott. „Það er geggjað. Ég hefði líklega ekki opnað stöðina nema hann hefði hvatt mig áfram og komið með mér í þetta.“

Indíana sér fyrir sér að Finnur muni koma meira inn í GoMove í framtíðinni. Hann langi til að mynda að spreyta sig í þjálfun.

Nánar er rætt við Indíönu Nönnu í blaðinu Eftir vinnu sem kom út þann 30. júní. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.