Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Dineout í Danmörku, en hún hefur á síðustu misserum leitt útrás hugbúnaðarfyrirtækisins þar í landi. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Þar segir að starf Jóhönnu felist einna helst í því að leiða áframhaldandi vöxt, þróun og sókn á hugbúnaði fyrirtækisins í Danmörku og afla nýrra viðskiptavina á markaðnum, ásamt því að sjá um daglegan rekstur á skrifstofu Dineout þar í landi þar sem nú starfi sex manns.

Áður en Jóhanna gekk til liðs við Dineout var hún framkvæmdastjóri stafrænu markaðsstofunnar Kliq í Kaupmannahöfn, þar sem hún kom m.a. að stefnumótunarvinnu Dineout fyrir inngöngu á danskan markað. Auk þess hefur hún reynslu af störfum tengdum markaðsmálum og viðskiptaþróun, m.a. í ferðaiðnaði.

Jóhanna er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og bakkalárgráðu í alþjóðlegum sölu- og markaðsfræðum með áherslu á stjórnun frá Tækni- og viðskiptaháskólanum í Hróarskeldu. Að auki er hún með bakgrunn í hugbúnaðar- og vefþróun frá IT háskólanum í Kaupmannahöfn

Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri Dineout:

„Það er mikill styrkur fólginn í því að fá Jóhönnu með okkur í lið enda hefur hún verið búsett í Kaupmannahöfn til fjölda ára og þekkir vel þann markað sem við hjá Dineout herjum nú á með okkar hugbúnaðarlausnir og þjónustu. Nú þegar sjáum við staðfestan árangur af störfum Jóhönnu og hennar teymis þar sem um 50 veitingastaðir, barir og kaffihús í Kaupmannahöfn notast nú við okkar kerfi eða eru í innleiðingarfasa. Við önnum varla eftirspurn þessa dagana og hafa staðir á bæði Jótlandi og Fjóni leitað til okkar og óskað eftir lausnum Dineout sem er afar ánægjulegt. Við hlökkum til að halda okkar vegferð áfram í Danmörku með Jóhönnu í fararbroddi.“

Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Dineout í Danmörku:

„Það hefur verið ævintýri líkast að kynna Dani fyrir hugbúnaði Dineout og þeim tækifærum og kostum sem lausnunum fylgir þegar kemur að hvers kyns veitingahúsarekstri. Danska veitingastaðaflóran hefur lengi kallað eftir þeim hugbúnaðarlausnum sem Dineout býður upp á, þá sérstaklega til að koma öllu utanumhaldi úr mörgum lausnum yfir í eitt skilvirkt heildarkerfi sem býður upp á borðabókana-, kassa- og viðburðakerfi, ásamt rafrænum gjafabréfum. Markaðurinn er afar spenntur fyrir lausnum Dineout og hvernig hægt sé að nýta lausnirnar til að lækka kostnað, minnka flækj­u­stig til muna og á sama tíma auka tekj­ur. Ég er stolt af þeim árangri sem við höfum nú þegar náð hér í Danmörku og verður spennandi að fylgja eftir þeim gríðarmörgu tækifærum sem markaðssvæðið býður upp á.“