Umtalsvert líf var á atvinnuhúsnæðismarkaði á síðasta ári. Samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár Íslands um viðskipti með atvinnuhúsnæði var 600 samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs, en til samanburðar var 492 slíkum samningum þinglýst allt árið 2020. Árið 2019 voru þinglýstir samningar 530 talsins og árið 2018 voru þeir 641 talsins.

Eins og fyrr segir vantar sl. desembermánuð inn í töluna yfir þinglýsta samninga um atvinnuhúsnæði á síðasta ári. Að meðaltali var 54,5 samningum þinglýst í hverjum mánuði á tímabilinu janúar til og með nóvember árið 2021. Að því gefnu að fjöldi samninga í desember hafi verið í kringum meðaltal má áætla að síðasta ár toppi, eða komist nálægt því að toppa, árið 2018.

Þegar rýnt er í fjölda þinglýstra samninga um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu frá 2012 má sjá að atvinnuhúsnæðismarkaðurinn var ansi líflegur lengi framan af. Á árunum 2012 til 2017 var fjöldi þinglýstra samninga á bilinu 754 til 807 (fæstir árið 2012 en flestir 2016). Árið 2018 fækkaði þinglýstum samningum niður í 641 og næstu tvö ár á eftir fækkaði samningunum verulega, og voru alls 530 árið 2019 og aðeins 492 árið 2020. Árið 2020 fór sérlega hægt af stað en til marks um það var einungis 267 samningum þinglýst fyrstu átta mánuði ársins á höfuðborgarsvæðinu en síðustu fjóra mánuðina færðist meira líf inn á markaðinn er 225 samningum var þinglýst. Eins og lesendum er eflaust ferskt í minni barst Covid-19 faraldurinn hingað til lands snemma árs 2020. Má því ætla að skella megi skuldinni af hægagangi fyrstu átta mánuði ársins á faraldurinn.

Í desember árið 2020 og janúar 2021 kom sérlega mikill kippur í markaðinn en þá var 73 og 82 samningum þinglýst. Hafði ekki jafnmörgum samningum verið þinglýst í einum mánuði frá því í janúar árið 2019 er 102 samningum var þinglýst.

Alls voru 448 samningar skráðir í kaupskrá á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs og nam heildarkaupverð þessara eigna ríflega 42 milljörðum króna. Til samanburðar voru 303 samningar skráðir í kaupskrá árið áður og nam heildarkaupverð eignanna ríflega 25 milljörðum króna. Þá voru 355 samningar skráðir í kaupskrá árið 2019 og nam heildarkaupverð eignanna tæplega 26 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .