*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 15. apríl 2019 16:23

Kvika hækkaði um nærri 9%

Þrátt fyrir mikla hækkun Kviku banka lækkaði Úrvalsvísitalan í viðskiptum dagsins í kauphöllinni.

Ritstjórn
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku hringdi inn fyrstu viðskiptin með bréf bankans á Aðalmarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi fimmtudaginn 28. mars síðastliðinn.
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,35% í tæplega milljarðs veltu dagsins í dag í kauphöllinni.

Langmest hækkun var á bréfum Kviku banka, sem hækkuðu um 8,74% í 177 milljóna viðskiptum, og fæst bréf bankans nú á 12,07 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi býst bankinn við að afkoman verði allt að 880 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi, fyrir skatt.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Vís, eða 1,85% í 125 milljóna króna viðskiptum, fóru þau upp í 12,63 krónur hvert bréf. Langmestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 339 milljónir króna, en bréf bankans hækkuðu um 0,26%, upp í 76,70 krónur.

Verðgildi bréfa Icelandair lækkuðu svo mest, eða um 2,17% í 29 milljóna viðskiptum, og eru bréf flugfélagsins nú verðlögð á 9,45 krónur. Næst mest lækkun var svo á bréfum HB Granda, eða um 1,32%, niður í 29,95 krónur, í litlum viðskiptum þó, eða fyrir rétt 142 þúsund krónur.

Þriðja mesta lækkunin var svo á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 0,89%, í 48 milljóna króna viðskiptum. Fóru þau niður í 171,95 krónur. Meðal félaga sem lækkuðu eilítið í verði í dag var stærsta félagið í kauphöllinni, Marel sem lækkaði um 0,19% í 62 milljóna viðskiptum og fór verðgildi bréfa félagsins niður í 519 krónur.

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest gagnvart Breska pundinu, sem hækkaði um 0,45% gagnvart krónunni. Fæst það nú á 156,73 krónur.

Stikkorð: Icelandair HB Grandi VÍS Kvika Eimskiptafélagið
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is