Landsvirkjun hagnaðist um 69,1 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur 9,9 milljörðum króna á gengi dagsins, á þriðja ársfjórðungi. Um er að ræða 45,7% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Landsvirkjun birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag.

Rekstrartekjur jukust um 17,5% á milli ára og námu 158,6 milljónum dala eða um 22,7 milljörðum króna. Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,1 dalir á megavattstund á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er hæsta verð á því tímabili í sögu Landsvirkjunar.

Eignir Landsvirkjunar í lok september námu 4.577 milljónum dala eða um 656 milljörðum króna. Eigið fé var 2.453 milljónir dala eða 352 milljarðar króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Landsvirkjun síðustu fimm fjórðunga.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Landsvirkjun síðustu fimm fjórðunga.

„Fjölbreytt ný eftirspurn eftir raforku er bæði frá núverandi viðskiptavinum og áhugaverðum nýjum aðilum. Henni er því miður ekki hægt að mæta nema að takmörkuðu leyti, enda er orkukerfið fulllestað með tilliti til bæði afls og orku. Óhjákvæmilegt er að forgangsraða frekari sölu við þessar aðstæður,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

„Á sama tíma er unnið hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu í vatnsafli, vindorku og jarðvarma, með sérstaka áherslu á Hvammsvirkjun, Búrfellslund og stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðva.“