Listi yfir stærstu hluthafa Íslandsbanka hefur verið uppfærður í kjölfar sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í bankanum fyrir 52,7 milljarða króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærsti hluthafi bankans, að ríkissjóði undanskildum, með 5,48% hlut en alls fékk sjóðurinn úthlutað um 1,1% hlut í útboðinu, ef miðað er við flöggunartilkynningu.

Á eftir LSR koma þrír af fjórum hornsteinsfjárfestum í frumútboði bankans í júní síðastliðnum. Gildi er þriðji stærsti hluthafi bankans með 5,07% hlut, þar á eftir kemur bandaríska sjóðastýringafyrirtækið Capital Group með 5,06% hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna er með 4,57% hlut.

Sjóðastýringafyrirtækið Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, er níundi stærsti hluthafi Íslandsbanka með 1,55% en félagið fór með undir 1% hlut fyrir útboðið. Í lok síðasta árs áttu Íslandssjóðir 0,94% hlut Íslandsbanka.

Einnig er að finna á listanum bandaríska fjárfestingabankann Citigroup Global Markets með 1,04% hlut en hann var einnig að umsjónaraðilum útboðsins. Ekki er ólíklegt að það Citigroup haldi á bréfum í Íslandsbanka fyrir hönd viðskiptavina sinna. Það sama á við um Arion banka og Landsbankann sem komast inn á listann.