Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir að þróun á skulda­bréfa­markaði undan­farnar vikur endur­spegli bæði væntingar um hærri raun­vexti og þrá­látari verð­bólgu á komandi misserum.

Sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka er lík­legast að meiri þróttur á í­búða­markaði og vinnu­markaði sé meðal á­hrifa­þátta en þróunin bendir til þess að vaxta­lækkunar­ferli Seðla­bankans tefjist fram yfir sumarið.

„Eftir linnu­litla hækkun á­vöxtunar­kröfu á skulda­bréfa­markaði frá miðjum síðasta mánuði hefur krafa ríkis­bréfa lækkað nokkuð að nýju síðustu daga. Til að mynda hækkaði krafa lengsta ó­verð­tryggða ríkis­bréfa­flokksins, RIKB42, sem er með loka­gjald­daga eftir 18 ár úr rétt rúm­lega 6,0% í 6,6% frá 8. mars til 15. apríl,” skrifar Jón Bjarki.

Á­vöxtunar­krafa þessa ríkis­bréfa­flokks endur­speglar lang­tíma grunn­vexti á Ís­landi en krafan endaði í í 6,4% miðað við kaup­kröfu miðað við síðustu viku.

„Þróunin frá því snemma í mars er við­snúningur eftir þá lækkun á­vöxtunar­kröfu á markaði sem varð á loka­mánuðum síðasta árs og upp­hafs­mánuðum þessa árs. Sumpart endur­speglar hún væntan­lega breyttar væntingar um þróun raun­vaxta en einnig móta væntingar markaðs­aðila um verð­bólgu­horfur á komandi árum á­vöxtunar­kröfuna að tals­verðum hluta,” skrifar Jón Bjarki.

Jón Bjarki segir að til að átta sig betur á breytingunni sé gagn­legt að skoða þróun á­vöxtunar­kröfu á verð­tryggðum ríkis­bréfum í sam­hengi við þau ó­verð­tryggðu en þar hefur orðið keim­lík sveifla og í ó­verð­tryggðu bréfunum. Sveiflan hefur þó verið tals­vert hóf­stilltari undan­farna fjórðunga.

Lang­tíma­raun­vextir hækkuðu veru­lega á markaði frá miðju síðasta ári fram til árs­loka þótt nokkur við­snúningur hefði orðið á þeirri þróun á síðustu vikum 2023. 1

Verð­tryggð krafa ríkis­bréfa til tíu ára var til að mynda 2,1% um mitt síðasta ár en hafði hækkað í 2,8% um síðustu ára­mót.

Í byrjun mars fór krafa slíkra bréfa svo lægst í 2,5% en stendur nú í 2,7%. Lang­tíma raun­vextir eru því nokkuð háir á þennan mæli­kvarða eftir að hafa farið niður undir 0% snemma á far­aldurs­tímanum.

„Til að gera langa sögu stutta endur­speglar hækkun á á­vöxtunar­kröfu ó­verð­tryggðra ríkis­bréfa, og þar með lang­tíma grunn­vaxta, undan­farnar vikur bæði væntingar um hærri raun­vexti og meiri verð­bólgu á komandi árum. Um þriðjungur hækkunarinnar skýrist af hærri raun­vöxtum en tveir þriðju hlutar endur­spegla hærri verð­bólgu­væntingar ef horft er til 10 ára. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Seðla­bankann,” skrifar Jón Bjarki.